141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

samskipti ríkisstjórnar og atvinnulífs.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vitnar í raforkuskattinn sem var tekinn upp 2010 samhliða því að lagður var á kolefnisskattur á fljótandi eldsneyti. Gerð var yfirlýsing þar um við aðila vinnumarkaðarins, það er rétt hjá hv. þingmanni. Í þeirri yfirlýsingu stendur líka að það skuli passa upp á að þeir skattar sem settir eru á raski ekki starfsskilyrðum fyrirtækja sem reka starfsemi hér á landi samanborið við önnur Evrópuríki og erlenda samkeppnisaðila á sama markaði.

Það hefur legið fyrir að stjórnvöld hafa ekki talið sig bundin af yfirlýsingunni um það hvernig tekjuöflun yrði háttað að loknum gildistímanum. Það vil ég ítreka, að loknum gildistímanum sem tiltekinn var í yfirlýsingunni. Þannig felur lögfesting skattsins nú í sér nýja ákvörðun um tekjuöflun fyrir ríkissjóð með raforkuskattinum. Það er alveg ljóst að í þeirri yfirlýsingu sem þarna var gerð voru stjórnvöld ekki að binda sig við að fara ekki í neina frekari skattlagningu þegar þessum tíma væri lokið. Fyrst og fremst var átt við það tímabil sem þarna var undir og þar hefur skatturinn haldist óbreyttur eins og um var samið. Nú er því tímabili lokið. Það er því ekki verið að brjóta neitt samkomulag vegna þess að við vorum ekki að skuldbinda okkur til engrar frekari skattheimtu þegar því tímabili lyki. Ég held að hv. þingmaður ætti líka að horfa til þess að starfsskilyrði atvinnulífsins hér á landi eru ekki lakari ef þau eru borin saman við það sem gengur og gerist í Evrópu. Það er það sem skiptir máli.

Í heild hafa skattar nú lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu frá því sem (Forseti hringir.) var fyrir hrun.