141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

samskipti ríkisstjórnar og atvinnulífs.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er algerlega óboðlegur málflutningur af hálfu forsætisráðherra. Við vitum að hér var um tímabundinn skatt að ræða samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um. Skattur sem ekki hafði áður verið lagður á var bundinn í lög tímabundið með sérstöku samkomulagi. Þegar menn gengu eftir því á gildistíma samkomulagsins hvort uppi væru áform um breytingar á því að skatturinn væri tímabundinn kom bréf eins og þetta sem ég er með í höndunum frá fjármálaráðherra um að engin áform væru hjá stjórnvöldum um að framlengja skattinn. Í ljós þess meðal annars taka menn ákvörðun um að fara í framkvæmdir, eins og Ísal gerði upp á 60 milljarða kr.

Mér sjálfum er ekki mikið í mun hvað snertir einstök fyrirtæki í þessu, það sem er alvarlegt eru almennu áhrifin af þessu, að ekki sé staðið við neinn skapaðan hlut. Atvinnulífið almennt er hætt að treysta því sem stjórnvöld segja. (Forseti hringir.) Vísa ég þar í stöðugleikasáttmálann, þetta samkomulag og annað sem sagt hefur verið á þessu kjörtímabili. Ísland er að verða sífellt verra land (Forseti hringir.) þegar kemur að pólitískri áhættu vegna þess hvernig stjórnvöld haga sér í samskiptum við atvinnulífið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörkin.)