141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

reglugerð um innheimtukostnað.

[10:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Með lögum nr. 77/1998, nánar tiltekið með 3. mgr. 24. gr., var dómsmálaráðherra þáverandi heimilað að gefa út leiðbeinandi reglur um lögfræðiinnheimtu og þann kostnað sem lögfræðingum er heimilt að leggja á skuldara. Sú heimild var því miður aldrei nýtt og með lögum 95/2008, innheimtulögunum, var hún felld úr gildi. En eftir hrunið og eftir þá miklu greiðsluerfiðleika sem fólk lenti í var þessi heimild sett inn aftur með lögum nr. 60/2010, og gert ráð fyrir því að innanríkisráðherra gæfi út reglugerð sem leiðbeindi lögmönnum um þann kostnað sem leyfilegt væri að taka af skuldurum. Þetta var ekki talið brjóta gegn samkeppnissjónarmiðum enda keppa lögfræðingar ekki um skuldara með viðskiptakjörum til þeirra heldur semja þeir við kröfuhafana og keppa sín í milli um þóknanir og þjónustu gagnvart kröfuhöfunum. En í ljósi þess gríðarlega aðstöðumunar sem er á lögfræðingunum í innheimtu annars vegar og skuldurunum hins vegar er ákaflega mikilvægt að settar séu skorður við því hversu langt megi ganga í því að innheimta kostnað af fólki sem fyrir er í nauðum statt.

Ég vil þess vegna inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvort vænta megi reglugerðar um þetta efni sem leiðbeini lögmönnum um það hve mikinn kostnað þeir megi krefja um og hvenær megi vænta reglugerðarinnar.