141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

rekstrarhalli Landbúnaðarháskólans.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get svarað spurningunni þannig að við erum með þetta mál til skoðunar og ekki bara þetta einangraða tilvik heldur öll svona tilvik hjá stofnunum með slíkan hala. Við höfum auðvitað verið að kljást við að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og unnið fjárlögin ár frá ári þannig að við getum minnkað skuldasöfnunina. Á næsta ári munum við ná þeim árangri, ef Alþingi samþykkir það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir, að stöðva skuldasöfnunina og það er fyrir öllu.

En það er rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að fara mjög vandlega yfir þetta mál og unnið er að því í fjármálaráðuneytinu. Við munum fá svör við þessu og niðurstöðu í málið á næstu vikum.