141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

barnaverndarlög.

65. mál
[11:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög miður þegar þarf að fresta gildistöku þessa lagaákvæðis sem Alþingi hafði á sínum tíma tekið ákvörðun um. Við stöndum hins vegar bara frammi fyrir þeim veruleika að ekki er búið að ná saman um fyrirkomulag þeirra mála sem hér um ræðir þannig að í raun og veru er ekkert annað að gera en að fallast á það að fresta gildistökuákvæðinu.

Ég vek athygli á nefndaráliti sem fylgir þessu máli frá velferðarnefnd og ég er einn þeirra sem skrifa undir það. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun málsins í nefndinni nú komu fram allar þær athugasemdir sem getið er hér að framan og svo virðist sem lítið hafi miðað í undirbúningi tilfærslunnar. Það eru því nefndinni mikil vonbrigði að samkomulag hafi ekki tekist á milli aðila á því tæpa eina og hálfa ári síðan lögin voru samþykkt.“

Með þessari ákvörðun er verið að setja tímapressu á að menn ljúki þessu máli. Það er mikil áhersla lögð á það af hálfu okkar sem sitjum í velferðarnefnd og við verðum auðvitað að treysta því að það gangi eftir.