141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem í fæstum orðum gengur út á það að afnema ákvæði í stjórnarráðslögum um að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir. Þess í stað verði ákvæði um ritun fundargerða á ríkisstjórnarfundum gerð ítarlegri og skýrari.

Mælt er fyrir um að þegar mál eru borin upp á ríkisstjórnarfundi skuli fylgja sérstakt minnisblað ráðherra til ríkisstjórnar þar sem meginatriði máls eru rakin og helstu sjónarmið sem að baki liggja. Auk þess að dagskrá ríkisstjórnarfunda skuli gerð opinber að fundi loknum, kynnt fjölmiðlum með tilkynningu og birt á vefsvæði Stjórnarráðs Íslands. Sá ráðherra sem beri ábyrgð á dagskrármáli geri nánari grein fyrir efnisatriðum þess samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að eigin frumkvæði eða samkvæmt fyrirspurnum þar um.

Jafnframt er lagt til að fundargerðir ríkisstjórnar verði aðgengilegar öllum að átta árum liðnum í stað 30 áður.

Virðulegi forseti. Ákvæði um hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum átti að taka gildi 1. janúar sl. en gildistöku þess var frestað til 1. nóvember og á tímanum sem liði þar á milli yrði skoðað nánar hvort slíkt ákvæði gæti haft einhverjar aukaverkanir, ef svo má að orði komast.

Fræðimenn hafa nú skilað áliti um það, þeir Róbert Spanó, prófessor í lögum, og dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er niðurstaða Róberts Spanós meðal annars að vart leiki á því vafi að hljóðritanir muni hafa verulegt vægi við sönnunarmat um hvort afstaða einstakra ráðherra fullnægi skilyrðum laga um ráðherraábyrgð. Óheppilegt sé þó að láta sakarmat ráðast af óljósum ummælum á ríkisstjórnarfundi og því kunni að vera rétt, eigi hljóðritun að koma til framkvæmda, að gera breytingu á lögum um ráðherraábyrgð þar sem gerð verði krafa um að skýr stuðningur ráðherra með bókun sé forsenda ráðherraábyrgðar, þ.e. að hlutdeildarábyrgð stofnist ekki nema ráðherra láti sérstaklega bóka stuðning sinn við mál.

Í annan stað segir hann að að óbreyttum lögum sé ljóst að ýmsir aðilar munu hvenær sem er áður en 30 ár eru liðin geta krafist aðgangs að fyrirliggjandi hljóðupptökum, jafnvel almenningur og fjölmiðlar, sem og sérstakir eftirlitsaðilar, svo sem rannsóknarnefndir sem Alþingi skipar, saksóknari Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og aðrar þingnefndir eftir atvikum, umboðsmaður Alþingis og ef til vill fleiri slíkir aðilar, svo sem Ríkisendurskoðun.

Í þriðja lagi að eigi hljóðritun að koma til framkvæmda kunni að vera rétt að kveða á um skilyrðislausa þagnarskyldu nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um slíkar upplýsingar.

Í fjórða lagi að eigi hljóðritun að koma til framkvæmda kunni að vera rétt að takmarka aðgengi forsætisráðherra á hverjum tíma að hljóðritunum funda fyrri ríkisstjórna.

Ljóst er því að það þyrfti að breyta mörgum lögum til að 30 ára ákvæðið héldi. Þetta eru sem sagt rök sem varða lagalega hlið málsins og lúta að því að erfitt er, eða kannski ógerlegt, að loka aðgangi að þessum gögnum í 30 ár.

Meðal niðurstaðna dr. Gunnars Helga Kristinssonar var í fyrsta lagi að hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum tíðkist hvergi í löndum sem við berum okkur saman við og hafi hvergi komið til álita annars staðar en hér.

Í öðru lagi segir hann að pólitískt samráð fari að stórum hluta, og í meira mæli en gengur og gerist í löndum sem við berum okkur saman við, fram á ríkisstjórnarfundum hér á landi.

Í þriðja lagi að hljóðritun muni breyta eðli ríkisstjórnarfunda frá því sem nú er, þ.e. að þeir færist í þá átt að verða hreinir afgreiðslufundir, jafnvel án umræðna en hið pólitíska samráð og raunveruleg ákvarðanataka færist annað.

Í fjórða lagi að nokkrar líkur séu á því að hljóðritun muni ekki hafa þau áhrif að auka gagnsæi eins og stefnt er að heldur hugsanlega hafa þveröfug áhrif.

Í fimmta lagi að æskilegt kunni að vera að leita annarra leiða til að auka gagnsæi í störfum ríkisstjórnarinnar.

Þetta eru sem sagt rök stjórnmálafræðingsins. Öll rökin eru mikilvæg og þegar þau eru lögð saman er niðurstaðan að mati meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að ákvæðið skili ekki þeim tilgangi sínum að auka gagnsæi og rekjanleika ákvarðana á ríkisstjórnarfundum.

Þess vegna komst meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þeirri niðurstöðu að til að tryggja rekjanleika og gagnsæi væri betra að setja skýrari ákvæði um ritun fundargerða á ríkisstjórnarfundum og stytta tímann sem liði áður en fundargerðir og fylgigögn yrðu gerð aðgengileg eða opin öllum almenningi. Rök fyrir því eru þau, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, að líklegt megi telja að pólitískt samráð sem nú fer fram á ríkisstjórnarfundum færist á annan vettvang þar sem ekki eru færðar fundargerðir og markmiðið um að auka gagnsæi í störfum og ákvarðanatöku ríkisstjórnar náist ekki. Þess vegna telja flutningsmenn að leita þurfi annarra leiða til að tryggja slíkt gagnsæi og leggja því til að dagskrá ríkisstjórnarfunda verði opinber samdægurs, í stað hljóðritana verði rekjanleiki ákvarðana í ríkisstjórn tryggður með skriflegri framlagningu gagna og loks að fundargerðir ríkisstjórnar verði aðgengilegar öllum eftir átta ár í stað 30 áður.

Nú er þetta frumvarp flutt af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hefur verið rætt þar nokkuð ítarlega þannig að út af fyrir sig tel ég óþarft að vísa því aftur til nefndarinnar. Það kunna svo sem aðrir að hafa aðra skoðun á því.