141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur verið að það hafi eitthvað misskilist sem ég sagði áðan. Í 7. gr. laga um Stjórnarráð Íslands segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Allir fundir ríkisstjórnarinnar skulu hljóðritaðir og afrit geymt í vörslu Þjóðskjalasafns. Hljóðritanir þessar skulu gerðar opinberar að 30 árum liðnum frá fundi.“

Spurning mín er einföld: Hvers vegna er ekki flutt tillaga um að þessi lagagrein falli burt úr lögum um Stjórnarráð Íslands í stað þess að fara þessar krókaleiðir með því að loka á heimildina í upplýsingalögum ef vilji er hjá ríkisstjórninni til að taka upp ríkisstjórnarfundi? Svo spyr ég hv. þingmann: Hvað verður nú um stuðning þingmanna Hreyfingarinnar og hv. þm. Þráins Bertelssonar vegna þeirra breytinga sem eru lagðar til? Eins og allir muna voru þessar hljóðritanir skilyrði fyrir því að þessir þingmenn styddu ríkisstjórnina.