141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að vísa til var ákvæðið sem lýtur að því að ráðherrum beri að upplýsa um efni mála sem rædd eru á fundum þegar að honum loknum. Talað er um að gefa út fjölmiðladagskrá sem ráðherrar munu síðan skýra nánar eftir einhverjum efnisatriðum eftir því sem niðurstaða verður um. Ég sé ekki betur en að undanþágurnar frá því séu það víðtækar að hægt sé að fella afar mörg tilvik þar undir.

Varðandi hitt málið get ég svo sem tekið undir það með hv. þingmanni að það er auðvitað betra að leiðrétta mistök en að láta þau standa. En ég verð þó að benda á að áhyggjur komu fram varðandi það sem frumvarpið byggir á, það kom fram í máli þeirra fræðimanna sem fengnir voru til að fara yfir málið að þær hefðu komið fram í upphafi málsins. (Forseti hringir.) Komið höfðu fram viðvaranir þegar frumvarpið var samþykkt í upphafi en þá var ákveðið að hlusta ekki á það.