141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:22]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að beina tveimur eða þremur spurningum til hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Ég verð svo með ræðu um málið á eftir. Ég spyr: Af hverju eru valin átta ár? Af hverju ekki 10 eða 15 ár eða eitt eða tvö ár?

Finnst hv. þingmanni við hæfi eftir hrun að Alþingi skuli, að skipun framkvæmdarvaldsins og forsætisráðuneytis, enn vera að velkjast með þetta mál tveimur árum eftir að það var lagt fyrst fram vegna þess að framkvæmdarvaldið var ósátt við það? Er það ekki óhæfa að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd beygi sig undir framkvæmdarvaldið með þessum hætti í kjölfar hrunsins og bíði eftir því að framkvæmdarvaldinu þóknist að leggja fram 32 blaðsíðna skýrslu tveggja manna um það hvers vegna ekki má upplýsa um mál á ríkisstjórnarfundum?