141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Í máli hv. þingmanns og framsögumanns málsins komu fram rök sérfræðinga sem þingmaðurinn sagði að lægju til grundvallar þeirri ákvörðun meiri hluta nefndarinnar að leggja fram þetta frumvarp. Það er rökstuðningur með málinu. Það er niðurstaða rannsóknar sem nefndin fékk 21. september 2012. Margvísleg rök eru rakin í greinargerð og fram komu í máli hv. þingmanns.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Lá það ekki allt fyrir þegar málið var lagt fram upphaflega og samþykkt? Ég hlustaði grannt eftir þeim umræðum á sínum tíma og las þau gögn í málinu. Mér finnst ég hafa heyrt það allt áður. Lá það ekki fyrir að menn hefðu áhyggjur af því að ákvarðanir yrðu teknar annars staðar? Lá það ekki fyrir að þetta tíðkaðist hvergi annars staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við? Lá það ekki fyrir að ríkisstjórnarfundir yrðu hreinir afgreiðslufundir o.s.frv.? Af hverju var ekki tekið tillit til þeirra sjónarmiða þá? Hvað hefur breyst á þessum tíma? Af hverju telur meiri hluti nefndarinnar svo brýnt að farið sé eftir þessum rökum núna þegar þau voru virt að vettugi þegar málið var samþykkt upphaflega?