141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[11:46]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Herra forseti. Á því frumvarpi til laga sem hér er fram komið hef ég átt von í langan tíma eða frá því í september 2011 þegar við samþykktum ný lög um Stjórnarráð Íslands því að þá var samþykkt að slá á frest gildistöku lagagreinar um að hljóðrita skyldi formlega fundi ríkisstjórnar Íslands. Þessi mótstaða og frestur vakti óneitanlega grunsemdir um að til stæði að framkvæmdarvaldið nýtti tímann til að finna snjalla aðferð svo að þessi lagagrein tæki aldrei gildi heldur dæi vöggudauða og væri engum um að kenna nema þá helst að frumvarpið sem yrði flutt í því skyni væri ekki flutt af ríkisstjórninni og ekki rökstutt af ríkisstjórninni heldur. Núna stöndum við uppi með frumvarp til laga sem er flutt af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar án nokkurs inngrips frá ríkisstjórninni og ekki rökstutt af ríkisstjórninni heldur tveimur háskólakennurum.

Mér finnst þetta allt saman frekar leiðinlegt mál vegna þess að minn stjórnmálaferill, sem er hvorki langur né merkilegur, hefur fyrst og fremst einkennst af því að snemma eftir að ég tók sæti á þingi sýndist mér sá kostur vera mikilvægastur fyrir þjóðina, sem hafði gengið í gegnum gífurlegt efnahagslegt fárviðri og lent í mikill hættu, að sú stjórn félagshyggjuflokka sem hér hafði tekið við fengi frið til að vinna að því að bjarga samfélaginu og þá helst því sem lýtur að velferðarmálum, fengi frið eitt kjörtímabil til þess að sinna því verkefni. Þess vegna hef ég stöðugt stutt þessa ríkisstjórn, jafnvel þegar hún hefur verið klofin innbyrðis og þegar hennar eigin ráðherrar hafa gengið gegn henni. Ég mun halda áfram að styðja ríkisstjórnina til enda þessa kjörtímabils, svo fremi sem henni dettur ekki eitthvað enn brjálæðislegra í hug en það að þjóðina vanti helst að auka heldur á leyndarhyggju í stjórnsýslu og samfélaginu.

Hvað er ríkisstjórn? Ríkisstjórn er framkvæmdarvaldið. Hver kýs þetta framkvæmdarvald? Það gerir Alþingi. Hver kýs Alþingi? Það gerir þjóðin. Sumir í ríkisstjórn hafa enn sem komið er og reyndar flestir hlotið kjör til Alþingis, þeir eru kjörnir þingmenn. Það umboð hafa þá þeir þingmenn sem taka til starfa í ríkisstjórn. Í upphafi þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr eða ráðuneytis frú Jóhönnu Sigurðardóttur voru tveir ráðherrar utan þings og tilheyrðu framkvæmdarvaldinu. Þeir voru ekki kosnir af neinum og höfðu ekkert umboð frá neinum nema Alþingi. Af því leiðir að Alþingi ætti að telja sér skylt að fylgjast afskaplega vel með störfum framkvæmdarvaldsins og framfylgja eftirlitsskyldu sinni með bæði því sem framkvæmdarvaldið framkvæmir, lætur framkvæma og því sem framkvæmdarvaldið er yfirleitt að bauka. Það er til dæmis mjög merkilegt að búa í landi þar sem það þykir sjálfsagður siður eða ósiður að ríkisstjórnin skilji engar heimildir eftir um starfsemi sína yfirleitt. Hún getur haldið fundi og einhvers staðar er til bókun um að fundur hafi verið haldinn en hvað fór fram á fundinum er trúnaðarmál, það er hvergi varðveitt, það er hvergi heimild til um það. Framkvæmdarvaldið gegnir ekki upplýsingaskyldu sinni, ekki við almenning í samtímanum og þaðan af síður við komandi kynslóðir. Af hverju getum við mennirnir lært? Við getum aðeins lært af einum hlut. Við getum lært hver af öðrum. Við getum lært af þeim sem komu á undan okkur. Ef þeir sem komu á undan okkur vilja ekki miðla upplýsingum áfram þá getum við ekkert lært af þeim annað en bara leyndina.

Það er leyndarhyggja sem einkennir umfram allt annað íslenska stjórnsýslu, sérstaklega framkvæmdarvaldið. Ég lít á það, fyrir mína parta, sem eina mestu meinsemd íslensks þjóðfélags. Ég lít svo á að opin stjórnsýsla og upplýsingamiðlun sé forsenda þess að lýðræði geti blómstrað og þróast. Ég vek athygli á því að hér tala ég í beinni sjónvarpsútsendingu í tvo litla míkrófóna, það fer ekki mikið fyrir þeim, og það sem ég segi er hljóðritað. Svona hefur þetta verið frá stofnun Alþingis, ekki með hljóðritunum eða sjónvarpsútsendingum heldur með því að Alþingi hefur starfað í heyranda hljóði. Ríkisstjórnir starfa ekki í heyranda hljóði, þær starfa í fullkominni leynd. Einhver leynd, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom inn á, er sjálfsagt nauðsynleg í sambandi við að reka þjóðfélag, reka ríki þegar kemur að þjóðarhagsmunum, varnarhagsmunum eða einhverju slíku sem halda ber leyndu. Því skal ég aldrei mótmæla. Hitt er annað mál, að þó að einhver leynd sé nauðsynleg þá er sú vænisjúka leyndarhyggja sem hér hvílir yfir öllum störfum framkvæmdarvaldsins okkur til trafala sem þjóð. Hún vekur efasemdir og grunsemdir. Menn sjá illan tilgang í hlutum sem hafa góða meiningu. Skortur á upplýsingum er sem sagt hættulegur. Upplýsingar eru til góðs. Ef maður vill starfa á mörkum ljóss og myrkurs, af hverju á þá endilega að leita sem mest inn í myrkrið?

Hér er boðið upp á málamiðlun, þ.e. að halda fundargerðir. Það er árið 2012 og við erum að tala um að bjóða upp á að ríkisstjórnir Íslands haldi fundargerðir. Hvar erum við stödd? Fundargerðir eru eldforn aðferð til að varðveita heimildir um það sem fram hefur farið á fundum en fyrst og fremst eru þær ætlaðar til að halda til haga niðurstöðum sem fundarmenn hafa komist að. Sem heimild að öðru leyti eru fundargerðir minna en einskis virði. Af hverju? Jú, vegna þess að hálfur sannleikur er ekki sannleikur. Í fundargerð er ekki að finna allan sannleika. Þar er að finna valið efni. Hljóðritun varðveitir allt, alveg frá: Viltu rétta mér kleinurnar? — yfir í: Eigum við ekki að hækka skattana um 50%? Allt er varðveitt í hljóðritun, en bara það sem hentar er varðveitt í fundargerð, það sem engan getur skaðað að áliti viðkomandi.

Röksemdirnar sem framkvæmdarvaldið kemur náttúrlega ekki með heldur tveir virtir háskólamenn, kennarar úti í bæ, eru vægast sagt mjög undarlegar. Annar þeirra segir að hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum tíðkist hvergi í löndum sem við berum okkur saman við og hafi hvergi komið til álita annars staðar en hér. Takk fyrir, en ég stend hérna á samkomu sem var stofnuð árið 930. Í löndum sem við helst berum okkur saman við hafði hvergi komið til álita að stofna svona þing, alls ekki. Þetta er elsta starfandi þjóðþing í heimi, segjum við á hátíðlegum stundum. Við vorum þó brautryðjendur á einhvern hátt og núna þegar við ætlum að brjóta ísinn í sambandi við að svipta leyndarhjúpnum af framkvæmdarvaldinu þá er allt í einu orðið stórkostlega hættulegt að gera eitthvað sem ekki tíðkast í löndum sem eru í kringum okkur.

Ég bendi á mikilvægi hljóðritana. Sumir höfðingjar í lýðræðisríkjum hafa sér til lofs og dýrðar látið hljóðrita alla skapaða hluti sem farið hafa fram í þeirra stjórnartíð. Í Bandaríkjunum fór það ekki betur en svo að ómögulegur forseti var settur af vegna þess að til voru heimildir um hversu ómögulegur hann var.

Stimamýkt stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er stórmerkileg, að flytja frumvarp sem framkvæmdarvaldið dreymir um. Ég efast ekki um að formaður nefndarinnar, sem ég ber mikla virðingu fyrir, láti hvorki kúga sig af framkvæmdarvaldi né öðrum. Hitt er ég alveg sannfærður um, að gamlir refir í ranghölum valdsins eru ekki í miklum vandræðum með klókindum sínum að plata sveitamanninn og það er það sem mér finnst hafa gerst hérna. Mér finnst að hinir yngri og óreyndari í þingliðinu hafi einfaldlega verið plataðir af þeim sem eru stundum kallaðir gamlir hundar, en þeim fylgja oft ósiðir sem við ættum að reyna að losna við.

Áður en ég lýk máli mínu og svo að ég gleymi því ekki þá fer ég fram á og krefst þess í raun og veru að þetta mál fari til allsherjar- og menntamálanefndar. Þaðan kom þessi lagaklausa og þangað á þessi lagabreyting, þetta líknarmorð að fara til umræðu. Þess krefst ég.