141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:06]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur er ég þakklátur fyrir að allt sem ég segi hér skuli vera hljóðritað því að hljóðritun mun leiða í ljós að ég hef ekki hrópað húrra fyrir einum eða neinum í þessum ræðustól eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fullyrti hér áðan. Þaðan af síður er ég á flótta undan einu eða neinu. Ég lýsti því yfir að ég mun greiða atkvæði gegn þessu leyndarhyggjufrumvarpi, þessu frumvarpi í þágu leyndarhyggjunnar, en það breytir ekki því að ég tel meiri hagsmuni fyrir þjóðina að því að ríkisstjórnin fái að starfa til loka kjörtímabils heldur en hrópa hana af út af þessu.

Það veldur mér vonbrigðum að leyndarhyggjan skuli vera svona inngróin. Mér finnst það mjög leiðinlegt og mér finnst það mjög sorglegt. Á fyrri hluta þingferils míns þegar ég var ungur, óreyndur og saklaus hélt ég hugsanlega að hægt væri að ná miklu meiri árangri í því að aflétta leyndarhyggju hérna. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með það eins og fjöldamargt annað. Fjöldamargt annað hefur verið gert allt öðruvísi en ég hefði viljað sjá og auðvitað er árangurinn ekki jafnmikill og mig hafði dreymt um. En þannig er það nú einu sinni að ef maður hefur lifað í meira en sex áratugi þá sér maður að góðir hlutir gerast miklu hægar (Forseti hringir.) en maður hefði viljað. Hins vegar kemur ógæfan eins og þruma úr heiðskíru lofti.