141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil útskýra mál mitt aðeins betur varðandi þetta undanþáguákvæði sem ég var að tala um og spyrja þingmanninn um. Það er með þetta frumvarp eins og frumvarp til laga um breytingar á nýjum upplýsingalögum að þá er fyrst opnað og svo er lokað á eftir sér með undanþáguákvæðum. Þarna var ég að benda á þá kórvillu sem liggur í þessari breytingartillögu að forsætisráðherra og ríkisstjórnin getur komið fram með sínar málefnalegu ástæður fyrir því að gögn séu ekki birt eftir ríkisstjórnarfundi. Ég er svo hrædd um að sú undantekning, sem kemur fram í þessum frumvarpstexta og er undantekning, verði að meginreglu. Ég tel að þessi lagasetning sé að vissu leyti sjónarspil vegna þess að auðvitað vill ríkisstjórnin hafa sem mest allt niðurlokað.

Hv. þingmaður talar hér um að málið sé að þokast áfram. (Forseti hringir.) Málið er ekkert að þokast áfram því að gildistökuákvæðið um hljóðritanir er 1. nóvember nk. Af hverju berst þá ekki þingmaðurinn fyrir því að lögin haldi gildi sínu?