141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:36]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Svo að öllu sé rétt til haga haldið eru þetta ekki málalengingar upp á 30 síður heldur upp á 36 síður, ekki batnar það.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að menn eru einfaldlega fengnir til að rökstyðja með ráðum og dáð leyndarhyggju sem forsætisráðherra telur að þurfi að vera yfir ríkisstjórnarfundum, forsætisráðherra sem hefur starfað í þessu umhverfi í yfir 30 ár og var í ríkisstjórn í hruninu, svokallaður hrunverji, svo að notaður sé íslenskur talsmáti. Það er því ekkert skrýtið að þetta viðhorf vaði enn uppi í forsætisráðuneytinu en það er okkar að breyta því. Ef við breytum því ekki gerir það enginn. Það er leiðinlegt að ekki skuli vera meiri hluti á Alþingi fyrir því að breyta þessu eftir hrunið, á fjórða ári eftir hrun. Erum við ekki komin lengra en þetta? Það er leiðinlegt.