141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:42]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki gott að bregðast við þessu. Það hefur komið fram hjá mér tvisvar að framförin í þessu máli er sú að verið er að þoka því áfram. Ég er ekki hrifinn af því að það frumvarp sem hér um ræðir taki gildi. Ég styð (Gripið fram í.) það að hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum verði framkvæmdar. (Gripið fram í.) Það kom fram í máli mínu áðan, ef hv. þingmaður hefði hlustað, (PHB: Ég hlustaði.) þannig að það er gagnslaust að spyrja hér spurninga aftur og aftur um eitthvað sem fyrir liggja klár svör við. Það er einfaldlega verið að sóa tíma þingsins og ef menn vilja gera það þá þeir um það, en mín afstaða í þessu liggur skýr fyrir.

Ég vil ekki að hljóðritanir verði afnumdar (Gripið fram í.) og ég vil auk þess að fundargerðir ríkisstjórna verði skýrt ritaðar og birtar innan tiltölulega skamms tíma frá fundi. Það er það sem við í Hreyfingunni höfum alla tíð staðið fyrir og gerum enn. (Gripið fram í.)