141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get stytt mál mitt mjög mikið vegna þess að flest eða margt af því sem ég ætlaði að segja kom fram í ræðu hv. þm. Róberts Marshalls og það er óþarfi að endurtaka það.

Ég vil þó segja að ég tel að það sem er að gerast núna og hv. þm. Róbert Marshall sagði mjög skilmerkilega frá, er að við erum að ganga mjög í átt til þess að opna stjórnkerfið, það er enginn vafi á því. Hér hefur fólk gert lítið úr fundargerðum. Það finnst mér óþarfi vegna þess að við erum að festa núna í lög að gera eigi fundargerðir og hvernig eigi að standa að þeim. Hvernig sem venjan er í dag er hægt að hætta henni eins og skot ef fólki sýnist svo.

Ég vil segja vegna þess sem kom fram í máli hv. þm. Þráins Bertelssonar um þá spurningu hvort Alþingi mætti ekki setja lög um hljóðritanir: Jú, auðvitað má Alþingi gera það, það er engin spurning. Alþingi getur hins vegar haft þá skoðun að það eigi ekki að setja lögin eða að það eigi að afnema þetta ákvæði, eins og lagt hefur verið til núna, og þá getur Alþingi gert það. Það er engin spurning um það.

Það kom fram hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni að hann vildi að málinu yrði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar. Svo kom tillaga frá hv. þm. Birgi Ármannssyni um að það færi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sú nefnd leiti umsagnar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og það ætti að geta gerst á nokkuð skömmum tíma.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en þakka umræðuna sem hefur verið fróðleg á margan hátt.