141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[14:44]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við reifum þetta mikilvæga mál, frumvarp til stjórnarskipunarlaga ásamt skýringum, þetta plagg sem þingmenn fengu í hendurnar í fyrra. Þetta er mjög merkilegt plagg og mig langar að hefja mál mitt á því að lesa bréf stjórnlagaráðs til Alþingis. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forseti Alþingis

Með ályktun Alþingis frá 24. mars 2011 var stjórnlagaráði falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þær tillögur liggja nú fyrir í formi frumvarps til nýrrar stjórnarskrár og afhendist það forseta Alþingis hér með. Frumvarpið var samþykkt einróma með atkvæðum allra ráðsfulltrúa á síðasta fundi ráðsins sem lauk miðvikudaginn 27. júlí síðastliðinn.

Stjórnlagaráði var meðal annars falið að fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar, sem kosin var af Alþingi 16. júní 2010. Hlutverk stjórnlaganefndar var að undirbúa þau verkefni sem síðar voru falin stjórnlagaráði, meðal annars með því að halda þjóðfund um stjórnarskrármálefni og safna gögnum og upplýsingum um þau og leggja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnlaganefnd hélt þjóðfund 6. nóvember 2010, þar sem þúsund þátttakendur voru valdir með úrtaki úr þjóðskrá, og afhenti nefndin stjórnlagaráði skýrslu sína og tillögur á fyrsta fundi ráðsins, 6. apríl síðastliðinn. Frumvarp stjórnlagaráðs er því afrakstur mikillar vinnu á löngum ferli.

Fulltrúar í stjórnlagaráði eru fjölbreyttur hópur með ólíkar skoðanir, menntun og reynslu. Hver og einn hefur tekið afstöðu til mála á eigin forsendum. Almenningur hefur átt greiðan aðgang að verkinu, fyrst og fremst með athugasemdum og innsendum erindum á vefsetri ráðsins. Þannig hefur varðveist sú hugmynd að almenningur kæmi að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Frumvarp stjórnlagaráðs hefur því mótast smám saman í samræðum milli fulltrúa innbyrðis og opnum skoðanaskiptum við samfélagið. Stjórnlagaráð afhendir nú þingi og þjóð frumvarpið. Skýringar með frumvarpinu verða afhentar Alþingi í næstu viku og endurspegla umræðuna innan ráðs og utan.

Stjórnlagaráð væntir þess að sú opna umræða sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum um stjórnarskrármál haldi áfram. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnarskrá séu framvegis bornar undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Fulltrúar í stjórnlagaráði eru einhuga um að veita beri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega. Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“

Undir þetta skrifa, herra forseti, Salvör Nordal, formaður stjórnmálaráðs, Andrés Magnússon og Ari Teitsson, sú sama Salvör Nordal og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins hélt fram áðan að sæi ýmislegt athugavert við þetta mál. (Gripið fram í.)

Vissulega á Alþingi eftir að fara í gegnum málið og það veit formaður Sjálfstæðisflokksins mætavel. En það er líka beðið um að almenningur fái að veita Alþingi leiðsögn þar að lútandi fyrst.

Herra forseti. Í skýringum með frumvarpinu kemur meðal annars fram um verkefni stjórnlagaráðs, með leyfi forseta:

„Í ályktun Alþingis um skipan stjórnlagaráðs var sérstaklega tiltekið að fjallað skyldi um eftirfarandi atriði í stjórnarskránni: Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar; skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra; hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins; sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds; 28 ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan; lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga; framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Jafnframt var tekið fram að ráðinu væri heimilt að taka fleiri atriði til umfjöllunar í starfi sínu. Meðal fulltrúa í stjórnlagaráði kom strax í upphafi fram mikill vilji til að taka mannréttindakaflann til endurskoðunar og jafnframt var ákveðið að taka fyrir nokkur önnur efni en þau sem voru nefnd sérstaklega í þingsályktuninni en hafði verið fjallað um í skýrslu stjórnlaganefndar, svo sem stöðu þjóðkirkjunnar og sveitarfélaga. Litið hefur verið á skýrsluna sem góðan grundvöll að byggja á en ekki bindandi fyrirmæli eða valkosti.“

Herra forseti. Stjórnlagaráð skilaði Alþingi feikilega góðu verki sem var algjörlega í samræmi við það sem Alþingi bað um og sem enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins utan einn, hv. varaþingmaður Óli Björn Kárason, greiddi atkvæði gegn. Engir sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn þessu ferli á sínum tíma og þegar verið var að vinna málið í allsherjarnefnd var þátttaka fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar í fullu samræmi við vilja allrar nefndarinnar. Meðal annars komu mjög merkar tillögur og gagngerar frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Nú hefur þeim hins vegar snúist hugur vegna þess að þeir standa frammi fyrir því að þeir fengu ekki að ráða öllu. Það er miður að einn stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli sýna slíkt ábyrgðarleysi, segi ég bara.

Herra forseti. Í aðfaraorðum þessara stjórnarskrárdraga segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Við þessu vilja þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja nei. Þeir vilja segja nei við þessu og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sent bréf til kjósenda flokksins um að segja nei við þessu. Þetta lýsir þvílíkri fyrirlitningu á þjóðinni, almenningi og þeim sem eru á póstlista Sjálfstæðisflokksins að engu tali tekur. Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, má skammast sín fyrir afstöðu sína. Hann hefur kallað þetta verkefni fúsk, hann hefur kallað þetta ólýðræðislegt, hann hefur kallað þetta óvandað og hann hefur kallað þetta óþarft.

Herra forseti. Hér kemur einfaldlega fram grímulaus sérhagsmunavarsla yfirstéttarinnar í Sjálfstæðisflokknum á völdum og yfirráðum yfir auðlindum. Vonandi láta almennir kjósendur Sjálfstæðisflokksins þessi orð hans sér um eyru þjóta og hlusta ekki á það að menn vilji hafna þessari nýju stjórnarskrá. Ég hvet sjálfstæðismenn um allt land, svo ég tali nú beint til þeirra sjálfur úr þessum ræðustól, að mæta á kjörstað og segja já og hvetja þingmenn sína til að taka fullan þátt í þessu starfi með öðrum á Alþingi í framhaldinu, þegar frumvarpið kemur inn í þingsali, og hvetja fulltrúa sína í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að vera málefnalegir og gæta hagsmuna almennings í einu og öllu í þessu máli en hafna sérhagsmunagæslu yfirstéttarinnar í flokknum.

Hvað Framsóknarflokkinn varðar hefur hann haft nýja stjórnarskrá á stefnuskrá sinni árum saman og hann hefur hvatt til stjórnlagaþings í langan tíma. Nú hefur að hluta til þingmönnum flokksins snúist hugur í því máli, en þó ber að virða það að formaður flokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipaði ekki sínu fólki að segja nei áðan. Málflutningur hans bar hins vegar keim af því að hvorki hann né aðrir þingmenn í flokknum sem ég hef rætt við né framsóknarmenn almennt virðast hafa mikla hugmynd um hvað fram hefur farið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undanfarið ár. Það var alveg auðheyrt af málflutningi formanns flokksins að hann hefur ekki hugmynd um þær hugmyndir sem hafa verið ræddar þær og þær leiðréttingar sem stendur til að gera, ekki hugmynd um að það hafi verið rætt um þær innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Mig langar að hvetja þingmenn Framsóknarflokksins alla saman og kjósendur til að taka höndum saman um að vinna þessu máli framgang á þingi þegar það kemur inn í þingið aftur. Það getur Framsóknarflokkurinn gert, en hann verður að gera það þannig að hann verður að skipa ábyrgan fulltrúa sem fulltrúa sinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Öðruvísi mun málið aldrei vinnast þar á neinum forsendum sem Framsóknarflokkurinn hefur fram að færa. Það er eitt af vandamálunum sem þingið stendur frammi fyrir. Þingmenn verða að sýna ábyrgð þegar kemur að stjórnarskránni.

Herra forseti. Í gær, 17. október, voru upp á dag liðin fjögur ár frá því að mannréttindafrömuðurinn, baráttumaðurinn og söngvaskáldið Hörður Torfason hélt sinn fyrsta útifund á Austurvelli. Hann hefur verið kallaður hættulegur maður, óeirðaseggur, friðarspillir og guð má vita hvað.

Herra forseti. Mig langar að lesa ræðubút frá Herði Torfasyni sem hann hélt á vegum Stjórnarskrárfélagsins í Iðnó í fyrra. Þar sagði Hörður Torfason, sá hugrakki maður, eftirfarandi:

„Ég á mér engan draum, heldur sýn hins vakandi manns, vakandi um eigin velferð, vel meðvitaður um að ég er ekki einn í þessum heimi, vakandi og vitandi að einstaklingur eða hópur sem fær vald mun fyrr eða síðar misnota það ef hann hefur það of lengi og gagnrýnislaust. Vakandi því að á meðan ég lifi vil ég eiga gott líf og deila sams konar kjörum með öðrum mönnum. Vakandi til að rísa upp gegn miskunnarlausum áróðri og yfirtöku fárra á auði allra. Vakandi til að ræða við aðrar manneskjur um það sem okkur er öllum fyrir bestu. Vakandi til að skilja að hver og einn einasti einstaklingur á sinn hluta í því kerfi sem við höfum komið okkur á fót og eigum og okkur ber skylda til að nota til góðs en ekki eyðileggja.

Vakandi og vel vitandi að þegar það kerfi sem við lifum við er komið að fótum fram og gerir ekkert annað en að hneppa okkur í þrældóm þeirra fáu sem hafa náð kerfinu á sitt vald — þá ber mér skylda að taka þátt í að skapa eitthvað betra.

Vakandi til að brýna fyrir mönnum að sá sem aðhyllist frelsi og jöfnuð verður að þora að sýna andlit sitt, rísa á fætur og andmæla ofríki með friðsamlegum, rökföstum aðgerðum og orðum. Vakandi og vitandi að á stundum verð ég að gera hlutina einn því að reynslan hefur kennt mér að ég verð aldrei einn mjög lengi.“

Herra forseti. Hörður Torfason á mikinn heiður skilið fyrir baráttu sína. Meðal annars vegna hennar stend ég hér í dag og ræði nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Fyrir það er ég þakklátur og fyrir það má þjóðin vera þakklát líka.