141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna því að loks ræðir hv. Alþingi efnislega tillögur stjórnlagaráðs. Ýmislegt gott er í hugmyndum stjórnlagaráðs en margt þarf að bæta, mjög margt, og sumt er beinlínis hættulegt. Þess vegna mun ég því miður þurfa að segja nei við 1. spurningunni á laugardaginn en ég vona að menn muni áfram vinna að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá og nýta til þess þær góðu hugmyndir sem koma fram í tillögum stjórnlagaráðs.

Ég ætla að ræða um breytingar á stjórnarskrá. Því miður er það þannig að ef gerð er breyting, eins og hér er verið að ræða um, á stjórnarskránni mun þjóðin aldrei greiða atkvæði um hana með bindandi hætti. Það sem mun gerast er að þing verður rofið um leið og Alþingi er búið að samþykkja þessa tillögu, síðan fer fram almenn atkvæðagreiðsla og þá verða almennar kosningar. Svo kemur nýtt þing saman og þá munu þingmenn í samræmi við stjórnarskrá greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni en ekki samkvæmt boðum frá kjósendum sínum. Stjórnarskráin núverandi mælir fyrir um þetta og það merkilega er að sú nýja nefnir sannfæringu þingmanna líka.

Ég vil að fyrst verði breytt reglum í stjórnarskrá um hvernig eigi að breyta stjórnarskrá. Að 79. gr. verði breytt. Það ætti að verða fyrsta breytingin á stjórnarskránni sem felur í sér að mikill hluti þingmanna þarf að samþykkja breytingartillöguna. Síðan yrði það sent í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en það ætti að þurfa háan þröskuld til að samþykkja það. Báðir þessir þröskuldar eru ætlaðir til þess að stjórnarskránni sé ekki breytt aftur og aftur eftir því sem vindar blása, að undirstöðunni undir allt þjóðskipulagið sé ekki breytt fyrirhafnarlítið.

Þær tillögur sem hér koma fram um breytingar á stjórnarskrá eru mjög vafasamar. Einfaldur meiri hluti á Alþingi, 32 þingmenn, einfaldur meiri hluti þeirra sem greiða atkvæði, kannski 30% þjóðarinnar, á að geta breytt stjórnarskrá. Ég óttast að svona auðveld breyting á stjórnarskrá valdi því að þegar hægri vindar blási verði eignarréttarákvæðin skerpt og félagslegu réttindin skert og þegar vinstri vindar blási verði eignarréttarákvæðin veikt og félagslegu réttindin skerpt. Stjórnarskráin dinglar stöðugt fram og til baka. Þetta er allt of mikill óstöðugleiki, herra forseti.

Svo hef ég bent á 2. mgr. 113. gr. breytinganna þar sem 5/6 þingmanna, þ.e. 53 þingmenn, geta tekið sig saman og breytt stjórnarskránni á einum fundi. Þeir geta til dæmis ákveðið að næstu kosningar fari fram eftir 30 ár og að þingsæti erfist, að börnin erfi þau. Þetta gætu þeir ákveðið. Þetta er stórhættulegt ákvæði. Þess vegna verð ég að segja nei.

En það er ýmislegt gott. Til dæmis er Hæstiréttur tekinn inn sem mér finnst sjálfsagt og Lögrétta líka. Hún er hins vegar meingölluð eins og tillagan er í hugmyndum stjórnlagaráðs. Þar er gert ráð fyrir að Alþingi sjálft kjósi menn í Lögréttu, jafnvel þingmenn. Lögréttan á að taka afstöðu til þess hvort þingmál samræmist stjórnarskrá.

Ég vil að fullskipaður Hæstiréttur myndi Lögréttu, eða stjórnlagaþing mín vegna, og að þar verði tekin afstaða til þingmála á Alþingi, að beiðni ákveðins hluta þingmanna, en líka að mál sem koma upp í gegnum dómskerfið, þar sem menn deila um hvort lög standist stjórnarskrá, fari beint til Lögréttu eða stjórnlagadómstóls sem þá væri Hæstiréttur fullskipaður og hann tæki afstöðu. Þetta er það góða sem kemur út úr tillögum stjórnlagaráðs sem ég get því miður ekki fallist á vegna þeirra hættulegu atriða sem eru í þessum tillögum.