141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:30]
Horfa

Jón Kr. Arnarson (Hr):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að taka þátt í þessum umræðum þar sem ég sit stuttan tíma nú á þingi og eins að mér verði þá fyrirgefið það að ég ætla ekki endilega að stilla mér upp með ákveðnum hætti öðrum hvorum megin við víglínu stjórnar og stjórnarandstöðu.

Ferlið í þessu stjórnarskrármáli hefur verið mjög merkilegt. Boðað var til þjóðfundar og síðan var þetta stjórnlagaráð skipað. Úr þessu koma þær tillögur sem verða lagðar fyrir Alþingi. Þetta er ákaflega merkilegt og merkileg tilraun til að veita almenningi aðgang að því að semja nýja stjórnarskrá.

Umræðan hefur samt oft verið á þann veg að það er eins og frekar sé verið að reyna að rugla málið en einfalda það. Tímans vegna ætla ég þá fyrst og fremst að ræða um fyrstu spurninguna: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Varðandi þessa spurningu er í raun afskaplega skýrt hvað gerist eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Einhverjir hafa verið að tala um að þetta þýði að alþingismenn séu að taka við skipunum frá kjósendum sem sé ólöglegt og þess háttar. En það sem gerist er kynnt í hinum ágæta bæklingi sem dreift hefur verið á öll heimili. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Það er lögbundin meðferð allra frumvarpa á Alþingi að þau geta breyst í meðförum þingsins, ýmist í kjölfar skriflegra eða munnlegra athugasemda eða umræðna á Alþingi. Það á einnig við um stjórnarskrárfrumvarp hvort sem það verður lagt fram með breytingum eða óbreytt miðað við tillögur stjórnlagaráðs.“

Varðandi þessa spurningu er í raun mjög klárt hvert framhaldið verður og hvað spurningin þýðir. Í raun er þetta ein mikilvægasta spurningin. Ég get tekið undir margt sem hér hefur verið sagt um frumvarp stjórnlagaráðs, ég er ekki endilega sammála öllu sem þar kemur fram. Ég bendi til dæmis á það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan um þjóðaratkvæðagreiðslu. Engu að síður eru í þessum tillögum stjórnlagaráðs mjög merkilegir hlutir. Mig langar sérstaklega að minnast á tvennt, það er annars vegar mannréttindakaflinn. Við heyrum allóhuggulegar fréttir af því núna á síðustu dögum að enn einu sinni sé öfgafull þjóðernishyggja vaxandi í Evrópu og í mannréttindakaflanum er tekið nokkuð klárt á því að slíkt muni ekki líðast og sé í raun brot á stjórnarskrá.

Annað er það að mér finnst kaflinn um náttúruvernd mjög merkilegur. Sjálfur er ég á því að eitt mikilvægasta verkefni okkar kynslóðar sé einmitt jarðvegsvernd og gróðurvernd og að laga fyrri skemmdir og á því er tekið í þessum nýju tillögum.

Virðulegur forseti. Ég kem hingað inn sem þingmaður í stuttan tíma og er ekki skráður félagi í þeim flokkum sem eiga sæti á Alþingi. Mér finnst ég því geta talað að mörgu leyti hér sem fulltrúi hins almenna kjósanda. Því vil ég skora á alla kjósendur þessa lands að kynna sér vel þær spurningar sem kosið er um, mæta á kjörstað og greiða atkvæði eftir sinni bestu samvisku. Ég verð þó að segja að ég vona að sem flestir kjósendur segi já við fyrstu spurningunni þannig að það merkilega starf sem unnið var á þjóðfundi og í stjórnlagaráði verði lagður sem grundvöllur að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá á Alþingi.