141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:46]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tel að sú umræða sem orðið hefur um stjórnarskrána og aukinn lýðræðislegan rétt almennings að beinni aðkomu um einstök mál séu mjög af hinu góða. Það er afar dýrmætt að koma hér með tillögur um að tiltekinn hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.

Ég minni á kröfuna um þjóðaratkvæði um EES sem ekki var orðið við. Ég minni á þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúka sem ekki var orðið við, um einkavæðingu Landssímans, um Icesave. Kannski var Icesave-kosningin eins konar gegnumbrot í þessari umræðu. Engu að síður eiga grundvallarstjórnarskrárbreytingar að vinnast í sem víðtækastri sátt, ekki aðeins meðal þingmanna og flokka á Alþingi heldur einnig við þjóðina. Það hefur því miður ekki verið gert í þessu máli að mínu mati. Ferlið hefur verið afar ósannfærandi frá upphafi. Ég minni á kosningar til stjórnlagaþings þar sem aðeins um þriðjungur kosningarbærra manna tók þátt. Meginþorri þeirra sem kosinn var í ráðið var héðan af höfuðborgarsvæðinu. Lítil þátttaka og það hvernig kosningar skipuðust endurspeglaði síðan mikla tortryggni úti á landsbyggðinni gagnvart þessu ferli öllu. Sú tortryggni er enn til staðar. Það bætti heldur ekki úr skák að Hæstiréttur skyldi síðan dæma kosninguna ógilda.

Í þeim grundvallargreinum sem stjórnlagaráð leggur fram eru atriði sem ég get ekki sætt mig við. Að sjálfsögðu er ýmislegt mjög þarft og gott í þessum 114 greinum og sjálfsagt að vinna áfram með það. En þar er meðal annars lagt til að fellt sé brott úr núverandi stjórnarskrá þessi grein, með leyfi forseta:

„Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.“

Hér er verið að leggja til að fella brott þessa takmörkun, þá heimild sem er í stjórnarskránni til þess að setja lög sem takmarka eignarhald erlendra aðila í fasteignarréttindum í þessu landi. Er það í takt við umræðuna um sölu á Grímsstöðum á Fjöllum? Eða er það í takt við umræðuna sem á sér stað gagnvart Evrópusambandinu þar sem krafist er að við gefum eftir eignarrétt okkar og eignarréttindi í íslenskum sjávarútvegi og fasteignum hér á landi?

Nei, þetta eru grundvallarréttindi sem ég er ekki sammála að vikið sé úr stjórnarskrá. Sama máli gegnir um þjóðaratkvæðagreiðslurnar. Það er mjög lofsvert að þarna sé lagt til að ákveðinn hópur eða hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, en í tillögum stjórnlagaráðs er tekið fram að það gildi ekki um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarlegum skuldbindingum né heldur um skattaleg málefni. Bíddu við, þarna er bara verið að tala um hreint fullveldisframsal á stórum þáttum sem ég er ekki sammála. Það má vel vera að þeir sem hlynntir eru því að við göngum þrautagöngu inn í Evrópusambandið séu hlynntir því að við framseljum valdið með þessum hætti.

Frú forseti. Þetta eru grundvallaratriði sem ég get ekki fallist á. Að sjálfsögðu styð ég þjóðkirkjuna og að sjálfsögðu styð ég aðkomu þjóðarinnar að þjóðaratkvæðagreiðslum, en þegar við endurskoðum stjórnarskrána megum við ekki fela svona grundvallaratriði í einhverjum 114 greinum sem fela í sér verulegt framsal á því fullveldi sem þjóðin hefur nú þegar.

Því segi ég alveg skýrt nei við fyrstu spurningunni, frú forseti, um að tillögur stjórnlagaráðs skuli lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá í framhaldi af þeirri vinnu sem þar var unnin.