141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:50]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Undir mistökum hæstv. forseta varð ég fyrir þeirri hugljómun sem leitt gæti til þess að við gætum lagt til hinstu hvílu öll helstu deilumál samtímans og þjóðfélagsumræðunnar og rifið landið upp úr hjólförum átaka, ekki bara stjórnmálaflokkanna, þannig að við mundum aldrei segja frá skoðunum okkar. Við gætum alveg haft skoðanir en við mundum bara halda þeim fyrir okkur. Að vísu er sá galli á hugmyndinni að í framkvæmd hennar mundi ekkert breytast, sem er ágætt fyrir þá sem aðhyllast engar breytingar en verra fyrir þá sem vilja breytingar. Hinn gallinn er sá að þannig virkar lýðræðið ekki. Það gengur út á að við skiptumst á skoðunum og það er eðlilegt að við höfum mismunandi skoðanir. Það er gott fyrir þá sem eru sífellt að ræða um sáttina og mikilvægi hennar í þessu máli að hafa í huga að það er eðlilegt að vera með ólíkar skoðanir.

Við erum að fara að leysa úr hluta þeirra ólíku skoðana með því að taka þátt í atkvæðagreiðslu á laugardaginn og er ástæða til að hvetja fólk til þess að gera það og taka þannig þátt ekki bara í afgreiðslu á tillögum stjórnlagaráðs heldur löngu ferli sem átt hefur sér gríðarmikinn aðdraganda og mikla efnislega umræðu og á enn þá eftir mikla efnislega umræðu. Áður en þetta kjörtímabil hófst og áður en hv. allsherjarnefnd setti ferlið af stað hafði átt sér stað töluverð umræða um stjórnarskrá Íslands.

Í allsherjarnefnd var mikið rætt um málið. Það voru allir sammála um það ferli sem þá fór af stað með stjórnlaganefnd. Það var algjör samstaða á milli allra flokka í allsherjarnefnd um hverjir yrðu skipaðir í þá nefnd. Það var algjör samstaða í allsherjarnefnd um að halda þjóðfund og að hann mundi byggja á niðurstöðum stjórnlaganefndar. Ekki var samstaða um stjórnlagaráð eða stjórnlagaþing en við náðum lendingu í málinu. Sá afrakstur er til umfjöllunar núna, hann hefur ekki enn þá komið til efnislegrar umfjöllunar í þinginu vegna þess að við erum stödd í miðju ferli.

Við ætlum að halda því áfram eftir að þessari þjóðaratkvæðagreiðslu lýkur. Ég ætla að segja já við drögum að nýrri stjórnarskrá vegna þess að ég tel að það sé betri útgáfa og betri stjórnarskrá fyrir Ísland. Það er skoðun mín.