141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[16:02]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Hér fylgja fáein orð um spariföt, samábyrgð og gjána milli þings og þjóðar. Fyrst örstutt um spariföt, því að það er að koma laugardagur sem lengi verður í minnum hafður sem sögulegur snúningur í sjálfsmynd Íslendinga, laugardagurinn 20. október 2012. Ég ætla að klæða mig upp og fagna með Íslendingum sem skilja sjálfstæði og taka eigin ákvarðanir, Íslendingum sem láta ekki mata sig af flokkspólitískum áróðri heldur mæta á kjörstað til að hrópa sína eigin skoðun niður á blað, Íslendingum sem skilja að stjórnarskrármálið er ekki fúsk heldur flókið og viðkvæmt mál sem tekur tíma.

Það er að koma laugardagur og sparifötin bíða í skápum okkar allra. Um hvað snýst þessi 20. október 2012? Hann snýst um samábyrgð og sögulegt samstarf þings og þjóðar. Þetta samstarf hófst með kröfum um nýja stjórnarskrá í þeirri fallegu gjörð sem var búsáhaldabyltingin. Þar fundum við mörg að við höfðum sofið á verðinum, að valdastéttin hafði fengið að ráða of miklu of lengi, að við þurftum að láta í okkur heyra. Við stóðum því saman á Austurvelli og tjáðum skoðanir okkar í verki rétt eins og hægt er að gera í kjörklefanum á laugardag. Ein krafan úr þeirri mótmælagjörð var ný og skýrari stjórnarskrá, síðar staðfest með afgerandi og fallegum þjóðfundi.

Hvers vegna eiga allir landsmenn að mæta á kjörstað og segja skoðun sína í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Til að tryggja fjöregg framtíðarinnar og til að brúa gjána á milli þings og þjóðar, til að leggja línurnar fyrir hrætt og ráðvillt Alþingi, til að hjálpa Alþingi. Ein staðreynd vill nefnilega gleymast í umræðunni: Krafan um nýja stjórnarskrá kom alls ekki frá Alþingi. Hún kom frá Íslendingum sem vildu hreinan skjöld. Á mannamáli: Þjóðin sagði: Við viljum nýja stjórnarskrá. Alþingi hefur nú svarað: Hér eru tillögur að nýrri stjórnarskrá, unnar af stjórnlagaráði, byggðar á þjóðfundi þínum. Hvað finnst þér um þær?

Þetta er laugardagurinn, þetta er ekki flókið. Og hverju ætlar þjóðin að svara? Ætlar hún að sitja heima í þessum veigamestu kosningum Íslandssögunnar? Eða ætlar hún að mæta á kjörstað, uppáklædd og sjálfstæð og segja sína skoðun með því að svara sex einföldum spurningum með já-i eða nei-i? Er íslensk þjóð slík þjóð að hún ráði við þetta verkefni? Alþingi ræður nefnilega ekki við það upp á eigin spýtur, það heyrist best hér í dag. Alþingi þarfnast leiðsagnar þjóðar sinnar. Valdið liggur því hjá okkur kjósendum og það er falið í nokkrum skrefum á kjörstað, það er falið í nokkrum krossum á blað í lokuðum klefa. Er íslensk þjóð slík þjóð að hún ráði við þetta verkefni? Auðvitað er hún það.

Frú forseti. Það er koma laugardagur. Ég ætla að klæða mig í sparifötin, flíka eigin styrk og sjálfstæði mínu, kjósa og fagna með sterkri þjóð sem segir skoðun sína skýrt og ákveðið. Alþingi þarf skýra leiðsögn. Það er að koma laugardagur, til hamingju með 20. október 2012.