141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[16:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er óhætt að fullyrða að kosningarnar á laugardaginn marki þáttaskil í lýðræðissögu landsins hvernig svo sem þær fara. Hver sem niðurstaðan verður í einstökum spurningum er þetta í fyrsta sinn sem öllum atkvæðisbærum Íslendingum gefst tækifæri til að greiða atkvæði beint og milliliðalaust og taka þannig afstöðu til meginatriða í stjórnarskrá lýðveldisins, hvort sem lýtur að jöfnun atkvæðisréttar, sjálfstæðum rétti til að kalla mál í þjóðaratkvæði, hvort leyfa eigi aukið persónuval við röð frambjóðenda þvert á flokka og mörg önnur stórmál, lýðræðislegar umbætur sem mörg okkar sem höfum talað hér í dag styðjum eindregið. Þau mál öll sem ég nefndi gæti ég haft langt mál um, ég hef oft talað um þau í þinginu, margoft fjallað um þau á síðustu árum og flutt frumvörp um sum þeirra og þingsályktunartillögur um önnur. En ég ætla að staldra við eitt mál, sem er spurning nr. 2.

Í bæklingnum segir að í núgildandi stjórnarskrá sé ekki ákvæði um eignarhald á náttúruauðlindum. Spurning nr. 2 hljóðar þannig: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Í tillögum stjórnlagaráðs er sagt að enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota, aldrei megi selja þær eða veðsetja og þær verði nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina alla.

Fyrir mér er þetta mikilvægasta ákvæði frumvarpsins og það er að finna í 34. gr. þess þar sem segir að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, verði sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Ákvæðið kveður einnig á um að við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbæra þróun og og almannahag að leiðarljósi og að leyfi til nýtingar auðlinda skuli veita gegn sanngjörnu gjaldi í tiltekinn tíma. Þetta eru algjör grundvallaratriði. Þá er lagt upp með að kveðið sé á um að slík leyfi skuli veita á jafnréttisgrundvelli og þau leiði aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Ég tel að ef frumvarpið verður samþykkt og spurningin um þjóðareign auðlinda fái meiri hluta, sem ég vona svo sannarlega að verði, í kosningunum á laugardaginn muni það hafa gífurlega mikla þýðingu bæði hvað varðar umræðu um endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða og einnig hvað varðar alla aðra nýtingu auðlinda landsins í nútíð og framtíð, hvort sem kemur að nýjum tækifærum við að afla raforku eða hverjum öðrum þætti auðlindanýtingarinnar.

Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og það sem hefur valdið hvað hörðustu átökum og deilum í samfélagi okkar á liðnum árum og áratugum. Núna gefst okkur tækifæri til að það verði stjórnarskrárbundið og skilyrðislaust ákvæði gegn hvers konar einkavæðingu auðlinda sem eru ekki nú þegar í einkaeigu. Þetta er mikilvægasta einstaka breytingin sem gera þarf á fyrirkomulagi okkar að mínu mati. Ég skora á alla atkvæðisbæra Íslendinga að láta þetta einstaka tækifæri ekki fram hjá sér fara svo hægt verði að taka af allan vafa um hver sé vilji meiri hluta atkvæðisbærra manna á Íslandi til þess hvort náttúruauðlindirnar skuli vera lýstar þjóðareign eða ekki. Hver sem niðurstaðan verður gagnvart einstökum öðrum þáttum, sem má hafa langt mál um eins og ég sagði, þá skiptir þetta að mínu mati gífurlega miklu. Vona ég svo sannarlega að afgerandi niðurstaða fáist um það á laugardaginn hver vilji meiri hluta atkvæðisbærra Íslendinga er.