141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[16:19]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hafði vissar efasemdir um ágæti þess að efna til þessarar umræðu svo seint í kosningavikunni einfaldlega vegna þess að Alþingi var búið að ákveða að biðja þjóðina um leiðsögn í þessu máli og kosningarnar fram undan, en eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið vel heppnað. Ég er ánægður með að það hefur dregist upp býsna skýr mynd hér af því að í raun og veru tel ég að talsmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins hafi talað hér í dag af ábyrgð og virðingu við það hlutverk sem við höfum beðið þjóðina að taka að sér í þessum efnum, að gefa okkur leiðsögn um stjórnarskrána og nokkrar lykilspurningar.

Vinur minn einn fyrir norðan, sem fyrir nokkru er farinn yfir móðuna miklu, sagði mér einu sinni frá því hvað það hefði verið gaman að lifa og vera ungur og frískur maður við lýðveldisstofnunina og árin þar á eftir, það hefði verið gaman að ganga til verka af eldmóði og byggja upp hið unga lýðveldi, slétta tún og hvað það nú var. Ég velti fyrir mér að í reynd erum við Íslendingar að sumu leyti aftur í sömu sporum. Við þyrftum sama anda aftur í samfélagið, nú þurfum við aftur að byggja upp eftir það hrun sem hér varð, við þurfum að endurreisa og endurmóta Ísland. Það er mikið verkefni og við vitum öll að þó að heilmikið hafi áunnist er líka mikið eftir. Ég held að það færi mjög vel á því og muni fara mjög vel á því, af því að ég trúi að svo verði, að við gerum það meðal annars á grundvelli nýrrar stjórnarskrár, að við einhendum okkur í það uppbyggingar-, endurreisnar- og endurmótunarstarf sem auðvitað er fram undan á Íslandi næstu árin, m.a. á grundvelli nýrrar stjórnarskrár.

Ég er bjartsýnn á að nú nálgist sá tími og mér endist meðal annarra aldur til þess hér á þingi að leiða það langþráða verkefni í höfn að Ísland eignist nýja eða endurskoðaða, heildstæða, nútímalega og góða stjórnarskrá.