141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[16:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég tel að það hafi komið mjög vel fram í umræðunni hér í dag hversu ótímabær atkvæðagreiðslan sem fram fer um helgina er í raun. Það er ekki vegna þess að þingið skorti frekari leiðsögn frá þjóðinni, eins og sagt var í ræðum í dag, sem málið er ekki tekið á dagskrá. Það virðist vera vegna þess að stjórnarflokkarnir eru einfaldlega ekki tilbúnir að taka afstöðu til þeirra fjölmörgu álitamála sem umræðan kallar á. Við höfum vinnu stjórnlagaráðsins, við höfum niðurstöðu þjóðfundarins, við höfum vinnu stjórnlaganefndarinnar og við höfum fyrri vinnu, eins og vinnu stjórnarskrárnefndarinnar. Allt þetta höfum við í höndunum og það er óþarfi að efna til kosningar um helgina um ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá.

Hingað koma margir liðsmenn stjórnarflokkanna og lýsa þeirri skoðun sinni að þeir hyggist styðja stjórnarskrárdrögin sem borin verða undir þjóðina um helgina, en ég sakna þess að í þeim ræðum sé til dæmis fjallað um mikilvægi þess að fella á brott ákvæðið um þjóðkirkjuna. Ég sakna þess að hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. ráðherra efnahagsmála komi hér upp og fjalli um mikilvægi þess að fjölga þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu þannig að þeir geti orðið allt að 53. Það leiðir af breytingunum sem bornar verða undir þjóðina um helgina að þingmönnum sem koma af höfuðborgarsvæðinu getur fjölgað upp í 53. Hvers vegna er ekki minnst á svona stóra þætti í ræðum hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. efnahagsráðherra að kjördæmakjörnir þingmenn landsbyggðarinnar verði einungis 11? Þetta er einn þáttur. Við hljótum að vera sammála um að þetta er stór þáttur og mikilvægur en það er ekki minnst á það, jafnvel þótt fólk sé hvatt til þess að styðja tillögurnar.

Ég sakna þess líka að tekin sé afstaða til umræðunnar sem við höfum efnt til hér, umræðunnar um inntak auðlindaákvæðisins. Hvers vegna tala menn ekki um inntak þess auðlindaákvæðis sem við höfum hér verið að tala fyrir? Hvað hafa menn á móti þeirri hugmynd sem við höfum teflt fram, því orðalagi sem stjórnlaganefndin kom fram með um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrána? Hvað hefur auðlindaákvæðið eins og stjórnlagaráðið hefur teflt því fram umfram hitt? Þessu er öllu ósvarað. Það er bara sagt: Ferlið er mikilvægt, það er mikilvægt að styðja við þetta.

Því er haldið fram um okkur að við tölum niður til þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað. Það er þvert á móti. Við fögnum því að þjóðin hafi verið fengin með í gegnum það ferli sem átt hefur sér stað, en nú er það okkar sjónarmið að það sé kominn tími fyrir þingið til að taka afstöðu til málsins. Það er ótímabært að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, við erum ekki með í höndunum þá vinnu sem hægt er að bera undir þjóðina, enda er niðurstaðan ráðgefandi, ekki satt?

Það er þá eitt sem við höfum lært af umræðunni í dag: Forustumenn ríkisstjórnarinnar eru fullkomlega ósammála þeim fulltrúum stjórnlagaráðsins sem hafa talað fyrir því að niðurstaðan sé á einhvern hátt bindandi fyrir þingið. Við höfum þó að minnsta kosti fengið það fram hér í dag þannig að óháð því hver niðurstaðan verður um helgina virðist þingið hafa frjálsar hendur. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að taka neina áhættu í þessum efnum, (Forseti hringir.) þingið hefur allt það í höndunum sem það þarf til þess að hefja vinnuna og ég er ekki tilbúinn að binda hendur mínar í þeim efnum að nokkru leyti við þau megindrög sem fram koma í tillögum stjórnlagaráðs þó að þar sé að finna margar ágætishugmyndir.

Ég mun þess vegna segja nei við fyrstu spurningunni.