141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég sé það í nefndarálitinu að ekki hafa verið kallaðir til gestir eða óskað eftir umsögnum um þetta mál núna. Væntanlega er það vegna þess að nefndin er búin að fjalla mjög ítarlega um það á fyrri þingum og nefndarálitin frá þeim fylgja með. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort nefndin hafi kynnt sér hvort það sé mögulegt að gildistaka laganna gæti ekki orðið fyrr en í janúar 2013. Nú er nefnilega komið fram yfir miðjan október og því spyr ég þingmanninn: Telur hv. þingmaður að þetta sé framkvæmanlegt, sérstaklega af því að við erum að detta inn í jólamánuðinn?

Í öðru lagi spyr ég um ákvæði til bráðabirgða sem snýr að réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins. Ég sat í hv. samgöngunefnd þegar þetta mál var þar til umfjöllunar fyrir tveimur árum og þá var töluvert rætt um það sem sneri að biðlaunarétti starfsmanna þessara stofnana. Ef ég man rétt var hann um 200 millj. kr. þá. Síðan er hnykkt á því í nefndaráliti meiri hlutans á fyrra þingi að þessi biðlaunaréttur verði virtur og því spyr ég hv. þingmann hvort hann líti svo á að ábendingar um biðlaunatíma starfsmanna sem þar komu fram verði virtar.