141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er nokkuð augljóst að frekari rannsóknir og kortlagning á fuglalífi verður ekki á Austurvelli eða grænum svæðum í höfuðborginni heldur miklu frekar í nærumhverfi náttúrustofanna víðs vegar um landið. Það er þessi hugsunarháttur sem slær mig. Það kemur fram í fyrrnefndri setningu. Ég veit að hún er af góðum vilja, til að verja.

Alltaf þegar litlu útibú ríkisstofnana úti á landi reyna að sækja sér aukið fjármagn fyrir hugsanlega hálfum starfsmanni eða einhverju slíku er sagt: Þú verður að tala við þingmenn kjördæmisins. Það eiga sem sagt allir að leggjast á eitt að búa til starfið. En þegar það kemur einhver hugmynd fram í stjórnsýslunni, að auka eigi við eitthvert verkefni og fjölga um fimm eða tíu starfsmenn hjá ríkisstofnun á höfuðborgarsvæðinu, þá er ákvörðunin bara tekin hér inni. Hitt er kallað kjördæmapot og alls kyns vitleysa af því að það er alltaf verið að verja einhver störf í staðinn fyrir að láta þau vera þar sem verkefnið er.

Ég velti þessu fyrir mér og tók þess vegna þann punkt aðallega í ræðu minni áðan hvort ekki væri nauðsynlegt að taka umræðuna í tengslum við hagræðingu í ríkisrekstri, uppskiptingu stofnana, og nota tækifærið í raunverulega byggðastefnu. Ekki það að ég vilji færa verkefni og starfsmenn frá höfuðborgarsvæðinu, síður en svo. Ég held reyndar að höfuðborgarsvæðið sé meira og minna sjálfbært um að búa sér til störf. En í 150 ár höfum við unnið að hinu gagnstæða. Við höfum dregið verkefnin frá öllu landinu hingað. Þetta er eitt stærsta kjördæmapot Íslandssögunnar, markvisst, og allir hafa unnið að því af heilum hug, 63 þingmenn hvaðan sem þeir hafa komið og öll stjórnsýsla ríkisins. Er ekki tækifæri til að fara nú hina leiðina (Forseti hringir.) og byggja upp þjónustuna þar sem hún þarf að vera? (Forseti hringir.) Það er væntanlega ódýrara þegar upp er staðið.