141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta andsvar til að koma einu atriði á framfæri sem ég náði ekki að setja fram í ræðu minni áðan, gleymdi eiginlega, og notfæra mér einnig að hv. þingmaður hefur sinnt þessu verkefni og fjallað ítarlega um það á liðnum árum.

Hv. þingmaður nefndi Siglingastofnun í upphafi ræðu sinnar áðan. Hún er ekki stór stofnun og er mjög sérhæfð. Sum af þeim sérhæfðu verkefnum sem hún hefur sinnt hafa meðal annars fjallað um rannsóknir á norðurslóðum. Nú velti ég fyrir mér því sem hefur ekki komið fram í umræðunni í dag eða ég hef alla vega ekki heyrt, hvernig uppskiptingin á Siglingastofnun verði og hvar þau sérhæfðu verkefni lendi. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég sé ekki fyrir mér þá nauðsynlegu aðstöðu sem Siglingastofnun þarf að hafa vera færða neitt annað, í annað húsnæði eða hagræðingu í þeim efnum. Ég sé ekki annað en hún verði að vera þar sem hún er. En ég velti sem sagt fyrir mér hvernig uppskiptingin á Siglingastofnun verður nákvæmlega. Ég hef haft af því áhyggjur. Þegar við erum til dæmis í samskiptum við aðrar þjóðir þá eru þar sambærilegar stofnanir sem starfsmenn Siglingastofnunar hafa verið í sambandi við. Hefur það verið rætt hvernig tryggt verður að það samband haldist? Hver fer þá til dæmis með norðurslóðarannsóknirnar sem Siglingastofnun hefur einhverra hluta vegna tekið upp á sína arma? Þekkir hv. þingmaður það? Gæti hann þá farið aðeins yfir afdrif Siglingastofnunar og (Forseti hringir.) þá hagræðingarmöguleika sem fólgnir eru í uppskiptingu stofnunarinnar?