141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert sem hv. þingmaður spyr um og þetta er einmitt það sem kemur fram og hefur verið skoðað um frekari hagræðingu og sparnað í sameiningu stofnananna. Það sem hv. þingmaður benti á var rætt í samgöngunefnd á sínum tíma, það er nú reyndar komið eitt og hálft ár síðan eða rúmlega það. Hún var með þessi mál, ég sat í henni þá en á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd núna. Þá var akkúrat hugmynd um að við værum með stofnun þar sem haf- og strandsvæðin féllu undir og að hafa þetta ekki eins aðgreint og er með flugið, Vegagerðina og Siglingastofnun.

Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en ég hef miklar efasemdir um að þetta sé rétta leiðin sem er verið að fara. Hv. þingmaður nefndi norðurslóðaverkefnið, það er nú eitt af því sem mikið er um rætt á hátíðisdögum. Það væri kannski enn frekar ástæða til að skoða það nánar, og fara yfir þá möguleika sem þar eru því að sóknarfæri eru í því en það eru líka ákveðnar hættur sem við verðum að vera á varðbergi gagnvart miklum flutningum sem þar fara um. Eitt af því er það sem hv. þingmaður nefndi og ég tel mjög mikilvægt að skoða það.

Það er líka ákveðin skörun sem myndast sem snýr að mengunarmálunum og kemur þá inn á tvær stofnanir. Það er því skynsamlegt að menn fari yfir þetta og nái utan um hvernig þetta er gert.

Þetta er ekki í nógu góðu lagi í dag og ég er ekki alveg sannfærður um að það muni breytast til betri vegar eftir að þetta mál er klárað. En eins og hv. þingmaður nefnir er auðvitað mikilvægt að skoða þetta til viðbótar við það sem áður hefur komið fram í umræðunni.