141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég veit að hann situr ekki í hv. umhverfis- og samgöngunefnd núna en hann sat í henni áður og eins og fram hefur komið hefur þetta mál verið til umfjöllunar í alllangan tíma.

Þetta atriði með Siglingastofnun og þau sérverkefni sem þar hafa auk þess verið vistuð einhverra hluta vegna, eins og rannsóknir á norðurslóðum og reyndar fleiri verkefni, t.d. repjuverkefni, eru verkefni sem maður veltir fyrir sér hvar lendi og hvort það hafi komið einhvern tímann fram í umræðunni. Þetta eru áhugaverð verkefni sem maður óttast kannski svolítið að hverfi hugsanlega í nýrri og stórri stofnun þar sem hún er auðvitað beintengd starfsmönnum viðkomandi stofnunar.

Ég vil líka nota tækifærið í þessu andsvari og lýsa því yfir að ég hef haft miklar efasemdir um þessa vegferð. Ég styð þetta mál ekki eins og það kemur fyrir. Við framsóknarmenn höfum rætt það allnokkuð í þingflokknum á fyrri þingum og ég vil ítreka það líka að þó svo að það sé skynsamlegt að fara í hagræðingu á ríkisrekstri þá verður maður að sjá hagræðinguna. Maður verður að trúa því að hún komi. Ekki bara að telja upp markmiðin sem eru oft gullin og falleg og líta vel út á blaði heldur að það sé einhverjar bakgrunnsupplýsingar á bak við þær sem sannfæra mann um að svo sé og einnig um að leiðin sé rétt. Ég efast stórlega um að hún sé rétt og ég veit að hv. þingmaður hefur lýst sams konar efasemdum í ræðum sínum fyrr. Við tveir komumst væntanlega ekki að niðurstöðu hvað (Forseti hringir.) varðar Siglingastofnun eða starfsemi hennar en það væri áhugavert ef nefndin tæki það til umfjöllunar núna þegar hún fær málið aftur til 2. og 3. umr. og það kæmi þá fram í nefndaráliti, álit nefndarinnar (Forseti hringir.) á afdrifum Siglingastofnunar.