141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[18:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur er rétt að taka það fram að gefnu tilefni að ég hef ekkert mat lagt á það hvað varðar þessa starfsemi ríkisins hvort henni sé betur komið hjá einkaaðilum eða hluta hennar. Auðvitað væri sjálfsagt að skoða það, það væri engin goðgá, en ég hef ekki lagt upp með það í málflutningi mínum í þessu máli.

Hitt er síðan rétt, að ég bendi á að menn eigi að vera tilbúnir og opnir fyrir því að nýta einkaframtakið þar sem það er hægt þannig að ríkisvaldið tryggi að þjónustan sé veitt og aðgengi að henni þar sem það á við til að þjónustustigið skerðist ekki ef hægt er að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri ríkisins með því og þess vegna líka með sameiningu stofnana, tilflutningi verkefna o.s.frv. Þess vegna eiga menn að vera opnir fyrir því.

Ég get alveg skilið og tekið undir það með hv. þm. Birni Val Gíslasyni að ákveðinn stoppari við sameiningu stofnana og annað slíkt hefur verið innbyggður í kerfið. Það er eðlilegt. Þess vegna skiptir svo miklu máli þegar við leggjum til að sameina stofnanir eða færa til verkefni að útfæra hvernig við hyggjumst ná fram hagræðingunni. Ef hagræðing er rökin fyrir sameiningu er ekki nóg að segja: Við teljum að það náist 10% hagræðing með því að gera þetta. Menn eiga að koma til þings með útfærslu á því hvernig stofnanir verði samþættar eða sameinaðar og hvernig 10% sparnaður náist. Það er hægt að koma með slíkt plan og leggja það fram. Þá er ekki lengur hægt, virðulegi forseti, fyrir þá sem standa á móti bara til þess að vera á móti að bera fyrir sig að þeir geti ekki séð hagræðinguna því að hægt væri að sýna fram á hana og ræða málið út frá því.

Með því að slá bara fram einhverjum tölum (Forseti hringir.) og segja: Við ætlum okkur einhvern veginn að ná 10% hagræðingu — er eðlilegt að (Forseti hringir.) menn staldri við og hafi af því áhyggjur að það takist ekki.