141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

hæstaréttardómur um gengislán.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var ekki auðveld staða sem blasti hér við þegar þessi ríkisstjórn tók við og það hefur tekið nokkurn tíma að greiða úr öllum þeim vanda sem hrunið olli í samfélagi okkar. Árið 2010 þegar þau lög voru sett sem vísað er til hér um meðferð gengislánanna hafði verið mikil óvissa um gengislánin í töluverðan tíma. Þau voru líka ólík að samsetningu og það sem reynt var að gera með þessum lögum þarna í lok árs 2010 var að eyða óvissu, láta jafnt gilda fyrir alla, líka þá aðila sem höfðu fengið þann dóm að þeirra erlendu lán væru lögleg, og sömuleiðis að komast að einhverri niðurstöðu um það hvar höfuðstóll þessara lána ætti að standa. Niðurstaðan þá varð sú að fara þá leið að láta vexti Seðlabankans gilda sem þýddi um 150 milljarða lækkun skulda á þeim tíma. Núna hefur dómur fallið þannig að þetta mun fara enn neðar og ég geri ráð fyrir að fjármálastofnanirnar séu núna í óðaönn að reikna þessi lán. Þetta var um þennan hluta.

Ég hafna líka þeirri söguskoðun hv. þingmanns að hér hafi ekkert verið gert fyrir heimilin og fyrirtækin. Þegar tölurnar eru skoðaðar sést að skuldasöfnun heimilanna minnkar og skuldastaða heimilanna lækkar. Skuldastaða fyrirtækja er líka að lagast þannig að í öllum opinberum tölum sjáum við skýrt að fyrirtækjum í vanda er að fækka. Vissulega eigum við eftir að ná til margra enn þá en leiðangrinum er ekki lokið og sem betur fer er þessi þróun að fara í rétta átt á öllum sviðum.