141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

skattur á ferðaþjónustu.

[15:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið góður gangur í ferðaþjónustunni á undanförnum árum og ánægjulegt að sjá hvað greinin hefur dafnað. Það hefur gerst með samstilltu átaki allra aðila, greinin hefur farið í mikið markaðsstarf og hið opinbera hefur komið að ákveðinni eflingu á því sviði og tekið þátt.

Það var því sem köld vatnsgusa framan í greinina, þennan vaxtarbrodd, þegar fjárlagafrumvarpið birtist á haustdögum og gert ráð fyrir að leggja í aukna skattheimtu á greinina. Það er svo sem í samræmi við aðrar hugmyndir ríkisstjórnarinnar sem eru ansi snauðar þegar kemur að því að efla atvinnulífið í landinu og hafa mikið meira staðið til þess að lama það frekar en hitt.

Greinin brást að sjálfsögðu við með mikilli gagnrýni, þetta kom þeim aðilum mjög á óvart. Ekki stóð á svörunum frá ríkisstjórninni en þó jafnloðnum og oftast vill verða í þessum málum: Við ætlum að setjast niður með ykkur og leysa þetta mál. Skattahækkun hafði verið boðuð en svo átti að setjast niður og leysa málið. Og hvernig? Annaðhvort á skattahækkunin að verða að veruleika eða ekki.

Það hefur hvorki gengið né rekið í þessu máli og greinin býr við gríðarlega mikla óvissu. Framkvæmdir eru í uppnámi. Það hefur komið ítrekað fram að víða um land er verið að draga úr framkvæmdum vegna skattheimtunnar og þeirrar óvissu sem ríkir.

Það voru og eru ákveðnar vonir bundnar við nýjan mann eða nýja konu í stól fjármálaráðherra, konu sem hefur góða þekkingu á þessum atvinnurekstri frá setu sinni í iðnaðarráðuneytinu áður. Mig langar til að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða skilaboð hún hefur til greinarinnar. Hvað er að gerast í þessum málum? Hefur hún einhver skilaboð að færa til þessa fólks sem bíður nú í ofvæni með verðskrár sínar (Forseti hringir.) og afkomu fyrir næstu ár?