141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

skattur á ferðaþjónustu.

[15:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er satt sem hv. þingmaður segir, hér hefur verið mikill uppgangur í ferðaþjónustu á undanförnum árum. Ég vil meina að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar séu ekki síst ástæðan fyrir því þar sem mikið hefur verið lagt til til að efla ferðaþjónustuna. Við erum í markvissri markaðssókn með ferðaþjónustunni, það er verið að byggja upp þróunarsjóði og framkvæmdasjóði og fleira svo að við getum farið að byggja upp ferðamannastaði. Það hefur miklu verið kostað til til að ferðaþjónustan geti dafnað hér á landi.

Varðandi þá skattheimtu sem hv. þingmaður nefnir er rétt að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir tekjum af henni upp á 2,6 milljarða. Við erum að fara yfir þetta núna í ráðuneytinu. Við höfum heyrt vel hvað fólk er að segja og forveri minn í starfi fjármála- og efnahagsráðherra setti á laggirnar vinnuhóp eða nefnd sem er að fara yfir málið og ég á von á að niðurstaða í því verði kynnt alveg á næstunni. Meira ætla ég ekki að segja um málið að svo stöddu annað en að við erum að skoða þetta.

Það skiptir máli, virðulegi forseti, að við skilum fjárlögum þar sem skuldasöfnun ríkissjóðs er stöðvuð, að fjárlögin tryggi að við stöðvum skuldasöfnunina þannig að við getum farið að greiða niður skuldir okkar. Það er mikið atriði.

Virðulegi forseti. Þessi skattheimta hefur verið gagnrýnd frá mörgum hliðum. Við höfum heyrt alla þá gagnrýni og erum að skoða málið vandlega með hana til hliðsjónar.