141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

skattur á ferðaþjónustu.

[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður hefur eitthvað rætt það við ferðaþjónustuna að hugsanlega kæmi til greina að hætta með þau verkefni sem ríkið tekur þátt í með greininni í staðinn fyrir þennan skatt. Ég held að hann ætti að ræða við ferðaþjónustuna hvort hún sé tilbúin til þess. (Gripið fram í.) Mér er það mjög til efs, virðulegi forseti. En þegar menn ræða svona hluti í hita leiksins falla ýmis orð og ég trúi ekki hv. þingmaður hafi verið að leggja þetta til.

Eins og ég sagði áðan er verið að skoða málið, við höfum heyrt alla þessa gagnrýni, við erum að fara vandlega yfir hana og niðurstaða í málinu mun líta dagsins ljós innan tíðar. Við erum með dagsetningar á því hvenær fjárlagavinnunni á að ljúka í þinginu og gera má ráð fyrir að vel fyrir þann tíma liggi þetta ljóst fyrir. Það hlýtur að þýða á næstu tveimur, þremur vikum.