141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

eignir útlendinga í íslenskum krónum.

[15:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér finnst slæmt þegar hæstv. ráðherra dettur ofan í skotgrafirnar og gömlu hjólförin eins og hún gerði undir lokin. Þetta er að sjálfsögðu stórt verkefni fyrir alla hv. þingmenn, alla, að finna á þessu lausn. Lögin sem sett voru og hv. ráðherra nefndi og fór að spyrja mig um, — ég er að spyrja hæstv. ráðherra, (Gripið fram í.) ollu því einmitt að núna um daginn fóru um 300 milljarðar í gjaldeyri af gjaldeyrisreikningi Seðlabankans til útlanda.

Við þurfum á öllum okkar vopnum að halda gagnvart kröfuhöfum og við þurfum að stíga hvert skref mjög varlega. Og við þurfum að gefa þessu ákveðinn forgang þannig að Alþingi fjalli helst um ekkert annað fyrr en komið er á hreint hvernig þetta verður leyst og búið að gera samninga við kröfuhafana ef hægt er. Til þess þurfum við að hafa vopn í höndunum.