141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

hámarkshraði á Reykjanesbraut.

126. mál
[15:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil gjarnan fá að vita hug hæstv. innanríkisráðherra til þess að hækka hámarkshraða á Reykjanesbraut upp í 110 km hraða á klukkustund. Ég vil um leið draga fram að í frumvarpi sem hann hefur lagt fram eru tillögur um að hámarkshraði á Íslandi geti verið 110 km á klukkustund. Ég held að ef einhver vegur sé til þess fallinn að hækka þar hámarkshraðann sé það Reykjanesbrautin, ekki síst með tilliti til þess að umferðarhraðinn þar er í raun í kringum 100 km á klukkustund, ég fullyrði það án þess þó að hafa gert nákvæmar mælingar á því. Ég vil samt leyfa mér að fullyrða að flestir sem aka veginn eru á í kringum 100 km hraða, án þess að ég ætli að allir séu það.

Ég vil einnig geta þess að ég hef skilning á því að það þurfi að huga sérstaklega vel að umferðaröryggi og setja vegrið milli akstursstefna. Ég tek heils hugar undir það. Það kann vel að vera að hæstv. ráðherra komi hér á eftir og segi: Við getum ekki gert þetta fyrr en vegriðið er komið á milli. En þá vil ég draga sérstaklega fram hversu mismunandi þörfin er á samgönguúrbótum á suðvesturhorninu og á landsbyggðinni. Hér er meðal annars mikil áhersla lögð á umferðaröryggi og þá þurfum við einfaldlega að forgangsraða í þá veru. Þess vegna vil ég líka gjarnan fá að vita viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort ekki eigi að forgangsraða þannig í samgönguáætlun að hægt verði að setja vegrið á Reykjanesbrautinni og klára líka vegrið á þeim brautum þar sem er tvöföldun.

Ég tel mikilvægt að menn átti sig á því að þá umræðu hvort leyfa eigi 110 km hámarkshraða á Reykjanesbraut verður að taka í samhengi við umferðarhraða annars staðar á landinu. Það er sami umferðarhraði á Reykjanesbrautinni og til að mynda þar sem keyrt er um Eyjafjörðinn þar sem er 90 km/klst. hámarkshraði eða fyrir vestan á ýmsum vegum sem eru mun mjórri og ekki eins öruggir og Reykjanesbrautin. Þá má kannski spyrja á móti: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að lækka hámarkshraðann annars staðar þar sem umferðaröryggi er ekki eins mikið og á Reykjanesbrautinni?

Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra taki vel í það að beita sér fyrir hækkun á hámarkshraða þegar og ef vegrið er komið á milli brautanna tveggja, tvöföldunarinnar á Reykjanesbrautinni. Ég held að það sé raunsætt og ég vil líka draga það fram að ég treysti íslenskum ökumönnum fyllilega til að keyra á þeim hraða, bæði út frá umferðaröryggi en ekki síður út frá hæfni og getu íslenskra ökumanna.