141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

hámarkshraði á Reykjanesbraut.

126. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hér var minnst á ljósastaurana. Ég vil líka benda hæstv. ráðherra á varðandi umferðaröryggið að það er mjög stopult ljósasamband við brautina, sérstaklega á kaflanum Kúagerði–Vogar þar sem engin regla er á því hvenær ljós logar og hvenær ekki. Þetta er aukainnlegg í umferðaröryggismálin.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir svörin. Ég hefði hugsanlega getað komið hérna gargandi og talað um forræðishyggju og fleira en það er nú aldeilis ekki. Ég er ánægð að hæstv. ráðherra skuli taka þann pól í hæðina að þegar búið er að koma umferðaröryggismálunum telji hann að rétt sé að hækka hraðann upp í 110 km hámarkshraða á klukkustund. Það er þakkarvert.

Hins vegar er það umhugsunarefni fyrir okkur sem erum af suðvesturhorninu, þingmenn Suðvesturkjördæmis, þegar þingið sjálft forgangsraðar Vaðlaheiðargöngum — ég veit að hæstv. ráðherra var ekkert rosalega hrifinn af Vaðlaheiðargöngunum — umfram til dæmis umferðaröryggismál á suðvesturhorninu, setur þau í forgang en ekki vegrið á tvöföldum akreinum sem við þurfum að hafa á suðvesturhorninu.

Þetta er eitthvað sem ég held að þingið eigi að hugsa um næst þegar það fjallar um samgöngumál og umferðaröryggismál. Það verður að taka tillit til ólíkra og mismunandi þarfa fólks eftir því hvar það býr á landinu. Við getum borið virðingu fyrir þörfum hver annars og tekið tillit til hver annars en þörfin á suðvesturhorninu er einfaldlega önnur, eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á.

Við erum með mislæg gatnamót alla leið á Reykjanesbrautinni en af hverju? Jú, til að auka umferðaröryggið fyrir vegfarendur og þau voru líka gerð með þann möguleika í huga að geta hækkað umferðarhraðann upp í 110 km hámarkshraða á klukkustund.

Ég held að næsta skrefið í þessu sé að menn forgangsraði rétt, ekki síst í þágu umferðaröryggismála, þannig að við getum meðal annars keyrt Reykjanesbrautina á 110 km hámarkshraða.