141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

dýpkunarframkvæmdir í Hornafjarðarhöfn.

211. mál
[16:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er spurt um málefni sem snertir lífsviðurværi fólks og skiptir samfélagið miklu máli. Það er spurt hvaða áform ráðuneytið hafi um lausn vandans við dýpkun innsiglingarinnar í Hornafjarðarhöfn.

Ég leitaði eftir svörum hjá sérfræðingum ráðuneytisins og þeim aðilum sem með þessi mál hafa að gera og er svar þeirra og greinargerð eftirfarandi:

„Í samgönguáætlun 2011–2014 er gert ráð fyrir að unnið verði að rannsóknum til að auka dýpið á grynnslunum utan við Hornafjarðarós. Hér er um flókið og vandasamt verkefni að ræða þar sem takast á sterkir straumar og landris og að auki mikið brim utan óssins. Til að kortleggja sjávarfallastrauma í Hornafirði er notað sjávarfallalíkan og það yfirfært á aðstæður við Hornafjarðarós. Fyrsti áfangi þessa verkefnis er að kvarða eða stilla líkanið en það er gert með því að styðjast við dýptarmælingar innan og utan óss og bera síðan saman mæld og reiknuð sjávarföll, strauma og rennsli í Hornafjarðarós og inn í Hornafjörð og Skarðsfjörð. Til að fá sem nákvæmastar upplýsingar um lögun grynnslanna og Hornafjarðaróss var í fyrsta sinn sumarið 2012 dýptarmælt með fjölgeislamæli allt svæðið bæði utan og innan óssins. Niðurstöðurnar sýna margt athyglisvert í lögun botnsins sem ekki hefur komið fram við fyrri einsgeislamælingar.

Siglingastofnun hefur í ár sett upp staðbundna ölduhæðarspá til að auðvelda siglingu um grynnslin. Jafnframt er unnið að öldufarsreikningum utan Hornafjarðaróss og stefnt að því að nota þær upplýsingar til að meta sandburðinn meðfram fjörunum og á grynnslunum. Á næstunni verða bæði sjávarfallalíkanið og staðbundna ölduspáin fyrir grynnslin kvörðuð með mælingum úr fjölgeislamælingum. Þegar kvörðun á sjávarfallastraumum, öldufari og sandburði lýkur tekur við könnun á mögulegum úrbótum til að auka dýpið á grynnslunum.

Siglingastofnun vinnur að þessu verkefni í samvinnu við sveitarfélagið Hornafjörð ásamt starfsmönnum Hornafjarðarhafnar, útgerðarfélögum á Hornafirði og verkfræðistofunni Verkís. Í ljósi framanritaðs er of snemmt að segja til um hver framtíðaralausn á innsiglingunni til Hafnar í Hornafirði verður.“

Eins og kemur fram í þessari greinargerð sérfræðinga sem að þessum málum vinna er of snemmt að segja nákvæmlega fyrir um hvert framhaldið verður en eitt má ráða af þessu svari og þessari greinargerð og það er að unnið er markvisst að því að kortleggja stöðuna með það í huga að því að fá úrbætur eins fljótt og auðið er.