141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

dýpkunarframkvæmdir í Hornafjarðarhöfn.

211. mál
[16:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svarið sem var mjög fróðlegt. Ég fagna því að unnið sé markvisst að þessu eins og hæstv. ráðherra lýsti. Ég vil þó biðja hæstv. ráðherra um að tryggja að til þessara rannsókna og þessarar vinnu verði veitt nægilegt fjármagn til að hægt verði að hraða niðurstöðum vegna þess að Hornafjörður er gríðarlega mikilvæg verstöð og stórt atvinnusvæði.

Ég veit að heimamenn hafa áhyggjur bæði af öryggisþættinum því að menn leggja sig í stórhættu í hvert skipti sem þeir sigla þarna inn og því að nú þurfa fyrirtækin að fara að huga að endurnýjun flotans og þá þarf að liggja fyrir framtíðarstefnumótun um það hvað eigi að gera þarna, hvort hægt verði að bregðast við þessari grynningu þannig að hægt verði að taka kvörðun um hvort eigi að halda áfram að gera út þarna og þá með hvers konar skipum eða hvort færa þurfi verstöðina annað.

Ég ítreka mikilvægi þess að niðurstaða fáist í þessu máli sem allra fyrst og að hæstv. ráðherra tryggi til þess fjármagn.