141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

breytingar á jafnréttislöggjöf.

135. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt, sem hefur komið fram, að nú hafa tveir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands gerst sekir um brot á jafnréttislögum. Fyrst var það hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem braut jafnréttislög og síðan braut hæstv. innanríkisráðherra einnig jafnréttislög. Jafnréttisstýra, sem heyrir undir hæstv. velferðarráðherra, sagði meðal annars ráðherra í ríkisstjórn hafa gefið jafnréttislögunum og kærunefnd jafnréttismála langt nef. Væri forvitnilegt að vita hver eru viðhorf ráðherra til þeirra orða jafnréttisstýru.

En við erum alla vega að upplifa núna brot tveggja ráðherra í vinstri stjórn gagnvart jafnréttislögum. Það er auðvitað grafalvarlegt. Á þessum tíma, á fimm til sex árum, höfum við beitt okkur, meðal annars í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, fyrir því að breyta jafnréttislögunum og þá undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur sem var þáverandi félagsmálaráðherra og er núverandi forsætisráðherra. Við breyttum jafnréttislögunum, fórum mjög vel yfir þau og inn komu áhersluatriði sem voru mikilvæg, þýðingarmikil, meðal annars þau að úrskurður kærunefndar væri bindandi að lögum, sem var mikið áhersluatriði ýmissa jafnréttissinna í gegnum tíðina.

Nú ber svo við að þegar þessir tveir ráðherrar, hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, fyrsti forsætisráðherrann í sögunni sem brýtur jafnréttislög, hafa ítrekað gerst sekir um að brjóta jafnréttislög þá kemur upp viðkvæðið — reyndar var gert grín að fyrrum dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, fyrir að segja sína skoðun á því að breyta þyrfti jafnréttislögum — um að breyta þurfi lögunum.

Við erum nýbúin að breyta jafnréttislögunum eins og ég gat um áðan, árið 2008 breyttum við þeim eftir mikla yfirlegu undir forustu hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Engu að síður telja báðir þessir ráðherrar að breyta þurfi jafnréttislögum. Ég vil gjarnan fá að vita hvort hæstv. velferðarráðherra, sem að hluta til hefur jafnréttismálin á sinni könnu, ber ábyrgð á Jafnréttisstofu, sé sama sinnis og hverja hann telji ástæðuna fyrir því að í slíkar breytingar þurfi að ráðast, hvort það séu þessi ítrekuðu brot sem leiði til þess að betur þurfi að fara yfir jafnréttislögin. Ég beini því eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á jafnréttislöggjöf í ljósi brota ráðherra á jafnréttislögum?