141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

breytingar á jafnréttislöggjöf.

135. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Aðeins út af jafnlaunavottuninni. Ég tek undir það að það skiptir máli að koma með jafnlaunavottun, ég veit að hún er á leiðinni en hún var líka á leiðinni árin 2007 og 2008 en þá vildi ekki þáverandi félagsmálaráðherra beita sér fyrir því. En ég tel rétt að fagna því ef hún er á leiðinni núna. Ég held að hún verði mikilvægt jafnréttistæki.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom inn á áðan varðandi kynbundinn launamun. Það er hluti af vandamálinu að jafnréttislög eru ekki virt. Við sjáum enn kynbundinn launamun og hann hefur ekki minnkað í tíð vinstri stjórnarinnar, síður en svo, hann hefur aukist bæði á hinum opinbera vinnumarkaði og innan einkarekinna fyrirtækja. Það eru því augljós teikn á lofti um að hægt hefur á jafnréttisbaráttunni. Það eru ekki nein jákvæð teikn á lofti hvað það varðar. Í ofanálag höfum við tvo ráðherra í ríkisstjórninni, þar á meðal forsætisráðherra, sem brjóta jafnréttislög.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög greinargóð og skýr svör. Mér finnst það teljast til tíðinda að hæstv. ráðherra sé ekki sammála forsætisráðherra eða innanríkisráðherra um að breyta þurfi ákvæði jafnréttislaga að svo stöddu hvað þetta varðar, eins og hann orðaði það, en hann tekur fram að skoða þurfi að hæfisskilyrði og fleira betur.

Hæstv. ráðherra telur sem sagt ekki rétt að breyta jafnréttislögum til að koma til móts við ábendingar brotlegra ráðherra. Ég held að það sé mjög raunsætt mat. Ég held að við verðum hins vegar öll að sameinast í því að veita bæði velferðarráðherra stuðning við að vinna að þessum praktísku hlutum, hvort sem það er jafnlauna- og jafnréttisvottunin eða annað sem heyrir undir ráðuneyti hans og skiptir jafnréttisflokkinn mjög miklu máli.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Hann telur ekki ástæðu til að breyta jafnréttislögunum að sinni.