141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

breytingar á jafnréttislöggjöf.

135. mál
[16:40]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að ástæða sé til að ítreka það sem ég sagði í svari mínu áðan að auðvitað hefur enginn ráðherra áhuga á því að brjóta jafnréttislög. Við viljum öll að unnið sé eftir lögum, að allir séu jafnir fyrir lögum, að fólk geti treyst því að umsóknir hjá ríkinu séu meðhöndlaðar málefnalega og að við séum ávallt að leita að hæfasta starfsfólkinu. Þannig á það að vera.

Við þurfum að vinna það ferli hvernig staðið er að slíkum ráðningum með eins faglegum hætti og hægt er þó að við gerum okkur grein fyrir því að það sé alltaf matskennt. Þannig þarf að stilla saman það sem kærunefndin leggur til grundvallar og það sem lagt er til í hæfnismati og ráðningarferlinu. Menn hafa tekið upp formlegri og vandaðri aðferðir en því miður hefur það ekki dugað þannig að það þarf meira til til þess að tryggja það betur.

Ég þakka umræðuna, það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram, meðal annars hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, að það er til vansa að óútskýrður kynbundinn launamunur skuli vera að vaxa að nýju. Hann er að vísu ekki búinn að ná því sem hann var áður en því miður er þetta viðvarandi vandamál alls staðar í kringum okkur. Ég er nýkominn af fundi með jafnréttisráðherrum á Norðurlöndum og þar hafa Svíar sett þessi mál aftur á dagskrá. Það verður verkefni Norðurlandanna að glíma við þennan vanda og við munum að sjálfsögðu leggja okkur fram við að vinna þá vinnu.

Ég mun vonandi kynna samstarf strax á miðvikudaginn um með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur að ráðist verði gegn þessari þróun. Jafnframt er verið að fara skipulega yfir öll ráðuneytin og í framhaldinu mun óútskýrður launamunur verða skoðaður í öllum stofnunum, hvernig staðan þar. Ég vona að við náum góðu samstarfi við launþegahreyfinguna í þessum efnum og í framhaldi af þessum könnunum að skera upp herör gegn þróuninni og vinna sameiginlega að því að ráðast gegn vandanum því að kynbundinn launamunur er okkur til skammar og við þurfum að gera miklu betur í þeim málum.