141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

þjónustusamningur við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

245. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. velferðarráðherra en mig langar að vita hvenær gert sé ráð fyrir því að undirritaður verði samningur við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands og hvort fjárlögin árið 2011 verði lögð til grundvallar þeim samningi.

Undanfarin ár hafa fulltrúar sveitarfélagsins Hornafjarðar átt fjölmarga fundi með starfsfólki velferðarráðuneytisins vegna þessa máls. Lagðar hafa verið fram ýmsar tillögur til lausnar á gerð þessa samnings milli aðila en enn þá hefur ekki náðst að undirrita hann. Þau fjárframlög sem gert er ráð fyrir til þessa í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á þessu ári og á að samþykkja fyrir áramótin eru mun minni en á árinu 2011. Þess vegna hefur sveitarstjórnin á Hornafirði meðal annars leitað til okkar þingmanna kjördæmisins til að aðstoða við að reyna að koma þessum samningi á og að hann verði ásættanlegur.

Við þekkjum þá miklu umræðu sem hefur verið hér í þingsal á undanförnum árum vegna mikils niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Á þeim heilbrigðisstofnunum sem litið var til var sérstaklega horft á stofnunina á Hornafirði sem fyrirmynd að því hvernig hægt væri að leysa þessi stóru og miklu verkefni á tiltölulega litlum stað án þess að skerða þjónustuna gagnvart íbúum. Þess vegna kemur manni á óvart að enn þá sé ekki búið að semja við stofnunina og í raun ekki horft til þessara sérstöku sjónarmiða sem ég hélt að við værum búin að ná að leiða fram í þinginu um að þetta sé stofnun sem getur verið fyrirmynd fyrir aðrar af svipuðu tagi um landið allt.

Tillögur sveitarstjórnarinnar felast í því að í fyrsta lagi sé hægt að láta núverandi þjónustusamning halda gildi sínu, í öðru lagi að samkomulagið sem náðist milli aðila vorið 2009 en ekki var gengið frá formlega verði undirritað og í þriðja lagi að fjárlög ársins 2011 verði grunnur að nýju samkomulagi aðila um nýjan þjónustusamning.

Vert er að geta þess að sveitarfélagið fékk KPMG til að gera úttekt á fjárveitingum til HSSA og annarra sambærilegra staða. Í þeirri úttekt kom fram að ekki ríkir jafnræði í útdeilingu fjármuna til stofnana af þessu tagi. Nú er þetta mál allt saman í hnút að því er mér skilst. Þess vegna finnst mér rétt að velferðarráðherra upplýsi okkur um það hvort til standi að undirrita þjónustusamning við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands og á hvaða grundvelli.