141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

þjónustusamningur við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

245. mál
[16:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um þjónustusamning við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands og spyr í fyrsta lagi:

„Hvenær er gert ráð fyrir að þjónustusamningur við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands verði undirritaður?“

Því miður hefur ekki tekist að ganga frá samningi við sveitarfélagið um heilbrigðisþjónustu en viðræður hafa átt sér stað á milli Sjúkratrygginga Íslands og sveitarfélagsins um nýjan samning. Sveitarfélagið hefur um árabil rekið heilbrigðisþjónustuna í bænum með mjög góðum árangri með samningi við velferðarráðuneytið, áður heilbrigðisráðuneytið. Með samstarfinu hefur þjónusta sveitarfélagsins verið samþætt við heilbrigðisþjónustuna sem hefur skilað sér í betri þjónustu og miðast betur við þarfir íbúanna. Til að mynda hefur sveitarfélagið samþætt félagslegu heimaþjónustuna með heimahjúkrun sem rekin er hjá heilsugæslunni.

Eins og áður sagði hafa viðræður átt sér stað við sveitarfélagið hjá Sjúkratryggingum Íslands um nýjan samning. Kröfulýsing um þjónustuna liggur fyrir sem báðir aðilar eru í raun sáttir við. Auk heilsugæslustöðva eru hjúkrunarrými, dvalarrými, dagvistarrými ásamt sjúkrarýmum á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands tekin með í reikninginn. Nýting öldrunarrýmanna er ekki í samræmi við heimildir í fjárlögum og hefur ráðuneytið lýst sig reiðubúið að koma til móts við sveitarfélagið með því að umbreyta framlagi í fjárlögum sem ekki er nýtt til dvalarrýma til að efla aðra þjónustu í þágu aldraðra á svæðinu, svo sem að efla heimahjúkrun, fjölga sjúkrarýmum og fjölga dagvistarrýmum. Í nýjum samningi er áformað að greiða fyrir hjúkrunarrými og dagvistarrými í samræmi við nýtingu eins og gert er hjá öðrum hjúkrunarheimilum sem eru á daggjöldum.

Ég vona að unnt verði að ganga frá nýjum samningi við sveitarfélagið fyrir áramót. Eins og ég hef lýst hefur ágreiningurinn fyrst og fremst staðið um raunþörfina og reiknuðu þörfina þar sem gert var ráð fyrir ákveðnum rýmum og borgað fyrir þau þótt ekki væri verið að nýta þau að fullu. Verið er að reyna að breyta því í ákveðna skilgreinda þjónustu en samningar hafa því miður ekki náðst.

Síðari spurningin sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir beinir til mín er þessi:

„Verða fjárlög ársins 2011 grunnur að þeim þjónustusamningi?“

Svarið er að við undirbúning fjárlagaársins 2011 voru fjárveitingar til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni samræmdar í samræmi við reiknilíkön og nákvæma yfirferð ráðuneytisins. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á var farið heildstætt yfir landið og það var ekki vandræðalaust að reyna að ná endum saman við þær aðstæður sem við höfum búið við. Lagt var mat á þörf fyrir fjölda rýma á hverju svæði fyrir sig og við matið var tekið mið af fjölda aldraðra og er aldurshópnum skipt upp í 67–74 ára, 75–79 ára og 80 ára og eldri. Elsti hópurinn vegur eðli máls samkvæmt þyngst í matinu. Þá er tekið tillit til fjölda einstaklinga sem eru með gilt vistunarmat og bíða eftir að komast í hjúkrunarrými.

Framlög til heilsugæslustöðva voru einnig endurreiknuð fyrir fjárlög 2011 og mönnunarþörf endurskoðuð fyrir hverja heilsugæslustöð. Fyrir fjárlög 2011 láðist í reiknilíkaninu að reikna með húsaleigugreiðslum hjá Heilbrigðisstofnun Suðausturlands. Í frumvarpi til fjáraukalaga í ár er lagt til að þetta verði leiðrétt og sú leiðrétting fer vonandi áfram inn í fjárlögin 2013. Eins og áður sagði er þess gætt að jafnræði sé á milli heilbrigðisstofnana þrátt fyrir að það hafi ekki náðst að fullu. Oftast má finna skýringar á þessum mismun, hann getur verið fjölbreytilegur, en síðan er tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað sem gerir þann mun sem hv. þingmaður nefndi oft sýnilegan.

Ég vona að ofangreindar upplýsingar svari spurningu hv. þingmanns þótt ég geri mér grein fyrir að það er erfitt að ræða hér samningamál í smáatriðum. Sá sem hér stendur er ekki einn af þeim sem sitja við samningaborðið. En ég geri mér grein fyrir því að þarna er um að ræða þjónustu sem, eins og hv. þingmaður sagði, er til fyrirmyndar og á að vera gott fordæmi fyrir aðra staði, ekki hvað síst þegar við erum að ræða það að færa málefni aldraðra yfir til sveitarfélaganna. Það hefur verið unnið að undirbúningi að slíkri yfirfærslu þótt það muni taka lengri tíma en áætlað var í upphafi. Það hefur einmitt verið rætt hvort á einstökum stöðum sé ástæða til að skoða hvort heilsugæsla fylgi með líkt og er á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

Ég vona að aðilar nái saman og við getum undirritað samning við heilbrigðisstofnunina. Það hefur verið unnið eftir eldri samningum án þess að þeir hafi verið formlega samþykktir og það má auðvitað ekki vera þannig til langs tíma.