141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

þjónustusamningur við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

245. mál
[16:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég geri enga athugasemd við að vakin sé athygli á málinu og ýtt á eftir því. Það er eðlilegt og sjálfsagt hlutverk þingmanna, en eins og kom fram og við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir erum sammála um, er ekki hægt að ræða samningana í smáatriðum enda hef ég það svo sem ekki í höndunum.

Markmiðið er að ná samningi. Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum jafnframt að gæta jafnræðis og við þurfum að tryggja að endar nái saman í ríkisfjármálunum sem er eitt af okkar stóru verkefnum. Um leið verðum við að vanda okkur og tryggja nauðsynlega þjónustu úti um hinar dreifðu byggðir. Ég hef áður sagt í þessari heilbrigðisumræðu að með því að við vorum almennt að núllstilla í heilbrigðiskerfinu, við förum ekki í frekari niðurskurð á næsta ári, gefst einmitt tækifæri fyrir okkur að anda og átta okkur á betur á því hvar þarf að bæta í í framhaldinu og fylla í eyðurnar því að sums staðar höfum við hugsanlega gengið of langt. Við verðum að tryggja að þjónustan verði sem jöfnust úti um landið í heild. Það er gert ráð fyrir því í lögum að heilbrigðisþjónusta sé veitt þannig að gætt sé jafnræðis óháð búsetu, kyni, aldri og öðru slíku.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málinu og að sjálfsögðu mun ég fylgjast með því að reynt verði að ná niðurstöðu þótt ráðherra grípi alla jafna ekki inn í samninga, ég get ekki lofað því. En ég fylgist auðvitað með og reyni að tryggja það að menn vinni áfram að málinu. Markmiðið er að við séum ekki að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu þar sem engir samningar eru að baki en eiga að vera í gangi. Við fengum einmitt nýlega gagnrýni fyrir það, af því að við ræddum tannlækningarnar áðan, að það væri mjög óeðlilegt og nánast ekki löglegt að menn væru að borga ákveðna hlutdeild í tannlæknaþjónustu án þess að samningar væru á bak við það sem verið væri að greiða fyrir.

Hér er því verkefni að vinna eins og víða annars staðar og ég heiti því að reyna að fylgja málinu eftir og gott að vita af stuðningi við það.