141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

húsakostur Listaháskóla Íslands.

147. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Listir setja sterkan svip á samfélagið og það er til marks um gæði í fari hvers samfélags. Listirnar gefa samfélaginu vissulega mikið gildi. Listnám hefur verið stundað á Íslandi um langt árabil en að mati þess sem hér stendur hefur það oft átt undir högg að sækja sakir aðstöðu og er það miður því að þessi grein á að njóta jafnræðis á við aðrar greinar á háskólastigi og við eigum að hlúa jafn vel að listnámi og öðru mikilvægu háskólanámi á Íslandi.

Engu að síður er það svo að Listaháskóli Íslands hefur um langt árabil verið á hrakhólum hvað húsakost varðar. Skólinn er dreifður víða um bæinn sem er miður vegna þess að það er úr takti við þá þróun sem orðið hefur í listunum á undanliðnum árum. Samlegðin milli listgreina hefur orðið æ ríkari og í dag má varla sjá þann mun sem var á milli fjölda ólíkra listgreina á fyrri tíð. Rithöfundar vinna æ meira í leikhúsi, leikhúsmenn vinna æ meira í kvikmyndum, myndlistarmenn vinna æ meira í leikhúsi og þar á meðal myndhöggvarar og þannig rennur margt saman í eina stóra heild, þannig er þróunin einfaldlega. Áður fyrr voru menn hver í sínu horni með sína listsköpun en nú rennur þetta meira og minna saman í eina samfellda heild.

Þess vegna skyldi maður ætla að mjög mikilvægt væri fyrir nemendur sem stunda nám í ýmsum listum að njóta þeirrar samlegðar sem er farin að gera vart við sig úti á markaðnum. Það er mjög mikilvægt fyrir listafólk sem hefur sérhæft sig í einni grein að geta unnið og eftir atvikum numið með fólki í öðrum listgreinum. Þannig eflast allar listgreinarnar fyrir vikið og nú sjáum við dæmi þess að um eins konar fjöllistir megi ræða þegar margar listgreinar leggja saman í eitt verk.

Þess vegna spyr ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um þetta efni, hvað líði áformum um að koma (Forseti hringir.) húsakosti Listaháskóla Íslands í varanlegt og gott horf.