141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

húsakostur Listaháskóla Íslands.

147. mál
[16:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og get tekið undir með honum að umhverfi listanna hefur tekið miklum breytingum. Hugsunin á bak við Listaháskóla Íslands, sem sinnir æðri menntun á sviði listgreina og er mjög mikilvæg stofnun fyrir íslenskt samfélag, hefur alltaf verið sú að efla einmitt flæði á milli listgreina. Þar höfum við séð mjög dýrmæta sprota koma upp. Ég nefni sem dæmi ýmsar þær nýju námsleiðir sem skólinn hefur mótað og byggir á að nemendur úr ólíkum listgreinum taki höndum saman og ég held að það verði ekki vanmetið.

Ég lít svo á, af því að hv. þingmaður ræddi almennt um stöðu Listaháskólans, að skólinn hafi í raun á skömmum tíma skipað sér mikilvægan sess. Hann byggir auðvitað á þeirri arfleifð sem í honum felst, þ.e. þeim menntastofnunum sem voru fyrir — ég nefni Myndlista- og handíðaskólann, Leiklistarskólann o.fl. Með áherslu sinni á þverfaglegt samstarf og þverfaglega samlegð hefur skólinn þegar skipað sér mjög mikilvægan sess í íslensku samfélagi og við sjáum það líka á þeirri verðmætasköpun sem greina má í kringum listirnar og hinar skapandi greinar. Þar hefur Listaháskólinn haft mjög mikilvægu hlutverki að gegna.

Mig langar að segja hér í framhjáhlaupi að á föstudag var kynnt skýrsla um stöðu skapandi greina og hvernig megi byggja upp samfélag hinna skapandi greina, ekki einungis sem vísinda- og menningarstarfsemi heldur líka sem atvinnustarfsemi. Það vakti athygli mína hve áherslan var mikil á menntun á sviði lista og rannsóknir á sviði lista. Þarna á Listaháskólinn auðvitað eftir að gegna mjög mikilvægu hlutverki.

Eins og hv. þingmaður nefndi er skólinn ekki á einum stað, hann er til húsa á þremur stöðum í borginni. Hann leigir 4.500 fermetra húsnæði af Fasteignum ríkissjóðs á Laugarnesvegi 91, sem eitt sinn var sláturhús, 2.300 fermetra að Sölvhólsgötu 13, þar sem tónlistar- og leiklistardeild eru til húsa, og enn fremur leigir skólinn 4.100 fermetra húsnæði í Þverholti 11 og fjögur útihús eða svokallaðar lausar kennslustofur sem eru alls 670 fermetrar á lóðinni Sölvhólsgötu 13. Listaháskólinn hefur því nú til umráða á tólfta þúsund fermetra.

Frá stofnun skólans árið 1999 hefur hins vegar verið stefnt að því að koma honum undir eitt þak og uppi hafa verið ýmsar hugmyndir í því samhengi. Fyrst má nefna að hugsunin var á einhverjum tímapunktinum sú að færa starfsemina í byggingu sem stendur við Laugarnesveg 91. Það hafa komið fram hugmyndir að nýbyggingu fyrir skólann og ég nefni sérstaklega hugmynd sem gekk út á að byggja upp húsnæði fyrir hann við Laugaveg í Reykjavík. Eins og allir þekkja hefur efnahagsástandið komið í veg fyrir að áfram hafi verið hægt að vinna að þessu máli af fullum krafti en það er mín von og framtíðarsýn, af því að hv. þingmaður spyr um hana, að Listaháskólinn komist undir eitt þak innan fárra ára enda er núverandi ástand óviðunandi til lengri tíma.

Ég hef átt gott samtal við Listaháskólann um þetta og að störfum er hópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis, sem hefur það hlutverk að meta þá kosti sem koma til greina fyrir framtíðaruppbyggingu Listaháskólans. Það liggur líka fyrir að áður en unnt er að taka frekari ákvarðanir um málið þarf að ljúka umfjöllun um fyrri áform Listaháskólans um nýbyggingu við Laugaveg í Reykjavík. Þarna er horft á ólíka kosti sem koma til greina.

Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að nú þegar við horfum vonandi fram á aðeins léttara líf í ríkisrekstrinum er þetta eitt af þeim verkefnum sem þarf að komast til framkvæmda; að skoða framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskólann á einum stað.