141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

húsakostur Listaháskóla Íslands.

147. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra um leið fyrir svörin sem mér finnst byggja á miklu raunsæi. Við vorum á sínum tíma að reyna að koma upp ákveðnu húsnæði fyrir Listaháskólann. Það gekk ekki eftir út af því sem síðan gerðist, hruninu á haustdögum 2008.

Ég tel málin vera í eðlilegum farvegi. Mér finnst gott að vita til þess að verið er að undirstrika mikilvægi Listaháskólans, bæði af hálfu fyrirspyrjanda og líka ráðherra, að námið í Listaháskólanum geti gengið þvert yfir allar greinar. Það er mikilvægt að námið þar verði þverfaglegt og nýtist fleiri háskólum. Ég velti fyrir mér hvort það sé raunsætt fyrr en samstarfsnefnd um háskólastigið hefur komist að niðurstöðu og hvernig við sjáum uppbyggingu allra háskóla á landinu háttað til lengri tíma litið, hvaða hlutverki Listaháskólinn hefur að gegna í þeirri stóru mynd allri. Ég tel að hann muni gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki.

Ég vonast til þess (Forseti hringir.) að það verði í farsælu samstarfi og samvinnu eða að hann verði hugsanlega sameinaður við einhvern af þessum stóru háskólum. En ég held að þau svör sem hér bárust hafi verið og séu mjög skiljanleg í ljósi allra aðstæðna.