141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

fjárveitingar til menningarverkefna úti á landi.

242. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég á hér nokkurt samtal við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um listir og menningarmál og nú síðast ræddi ég um nauðsyn þess að koma á fót nýjum Listaháskóla sem væntanlega verður staðsettur í höfuðborginni enda er það í sjálfu sér eðlilegt. Þar þarf að hugsa með djörfung til komandi ára og skapa þeim krökkum sem vilja fara í listnám, margs konar listnám, margvíslega og góða aðstöðu á einum stað svo að samlegðin geti notið sín.

Herra forseti. Hingað kem ég hins vegar upp og spyr um framlög til menningarverkefna úti á landi. Mér hefur sýnst á þeim árum sem ég hef setið á þingi að margar stofnanir sem lúta að menningarmálum í höfuðborginni eða á höfuðborgarsvæðinu eigi í flestum tilvikum auðveldara með að sækja sér fjármuni til ríkisins og þar fyrir utan auðveldara með að sækja sér fjármuni til ýmiss konar styrktaraðila en ýmsar menningarstofnanir úti á landi sem koma oft með betlistafinn til Reykjavíkur og fá misjöfn svör og sjaldnast langtímasamninga til að halda úti sínum rekstri.

Auðvitað er það svo að höfuðborgin er og á að vera miðstöð í margvíslegum skilningi. Þar á meðal miðstöð lista en það er engu að síður gríðarlega mikilvægt fyrir byggðir landsins að geta haldið úti þróttmiklu menningarstarfi, þar á meðal á atvinnustigi. Það eykur sjálfstraust og sjálfsvirðingu byggðarlaganna og eykur aðdráttaraflið á allan hátt og lífsgæðin í hverju byggðarlagi. Þess vegna er mjög mikilvægt að ýmsar menningarstofnanir úti á landi, ég nefni til dæmis á Akureyri, þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er rekin með myndarbrag og Leikfélag Akureyrar svo nokkrar menningarstofnanir séu nefndar sem nú þegar eru á spena ríkisins að einhverju leyti, fái sömu fyrirgreiðslu og njóti sömu kjara í viðskiptum sínum við ríkið og þær stofnanir sem eru breiðastar fyrir á fleti í henni Reykjavík.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati að bera saman fjárframlög til menningarmála annars vegar úti á landi og hins vegar í höfuðborginni þar sem aðgangur fólks er auðveldastur og stystur að menningunni, ríkisstyrktri menningu, en þegar kemur að hinum dreifðu byggðu þá er miklu kostnaðarsamara að reka ýmiss konar menningarstarfsemi og fyrir vikið eðlilegt að hún sé styrkt sem því nemur.

Mig langar að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Hafa fjárveitingar úr ríkissjóði til menningarverkefna úti á landi (Forseti hringir.) lækkað frá því að safnliðakerfi fjárlaga var breytt og ef svo er, á hvaða landsvæðum hafa fjárveitingar lækkað mest?